Eftir róðraræfingar á Laugarvatni og undirbúning var komið að Kanóaferðinni niður í Apavatn. En hún er seinni útivistarferðin af tveimur í byrjunaráfanga í útivist í ML.
Menntaskólinn að Laugarvatni á helmingshlut í átta kanóum og þar sem nemendur eru 48 í áfanganum var hópnum skipt í fjóra hópa. Hafa ferðirnar verið mest þrjár hingað til. Tveir einstaklingar eru í hverjum bát. Tvær ferðir voru farnar þriðjudaginn 20. september, og tvær miðvikudaginn 21. september kl. 09:30 og 13:20.
Hófust ferðirnar við græna kanóaskúrinn niður við Laugarvatn og var róið sem leið lá, yfir vatnið og svo niður Hólaá og komið að landi við strendur Apavatns, þar sem bátarnir voru settir á kerru og fluttir á Laugarvatn aftur. Stoppað var tvisvar sinnum á leiðinni til að hvíla hópinn og hlaða orkutankana með kjarngóðu nesti.
Öryggið var að sjálfsögðu sett á oddinn í ferðunum nú sem endranær. Pálmi var á björgunarbát Björgunarsveitarinnar Ingunnar yfir Laugarvatnið og svo var Óli G. íþróttakennari ávallt fremstur í hópnum og Pálmi á eftir honum, hvor á sínum kanó, þannig að það var ekki möguleiki að týnast, nú eða komast ekki upp í bátinn sinn ef einhver myndi velta.
Það er skemmst frá að segja að ferðirnar gengu glimrandi vel, allir nemendur voru mjög sprækir við róðurinn enda fengum við hlýtt og gott veður báða dagana. Tveir bátar ultu, fyrir smá kæruleysi viljum við segja, en það gekk vel að koma þeim á réttan kjöl og ræðurum í bátana aftur.
Það voru svolítið þreyttir nemendur en ánægðir sem komu á heimavistina sína að loknum vel heppnuðum og skemmtilegum Kanóaferðum.
Kv. Óli Guðm. og Pálmi Hilmars.
Mikið af myndum í myndasafni.