hellaferdh12Árleg hellaferð útivistar var farin föstudaginn 23 nóvember.  Lagt var af stað eftir hádegið og ekið áleiðis inn í Goðahraun eins og það er nefnt í Hellabókinni. Flestir hér kalla það þó Gjábakkahraun en það á upptök sín í sprungu sem liggur milli Hrafnabjarga og Kálfstinda austan Þingvallasveitar. Það mun vera eitt hellaauðugasta hraun landsins en fjöldinn allur er af hellum þar og eru nokkrir þó nokkur hundruð metra langir.

Við höfum oftast farið í einn þeirra sem nefndur er Litli-Björn-Vörðuhellir.   Þetta eru eiginlega tveir hellar með afar þröngum samgangi á milli og stundum treysta ekki allir sér í gegn og fara þá til baka sem er allt í góðu að sjálfsögðu.  Litli Björn er afar vel gerður og lítið hruninn, gott að ganga um hann og gólfið víða slétt en bergmyndanir af ýmsu tagi að sjá á leiðinni. Hann er um 230 metra til suðurs frá niðurfallinu þar sem gengið er inn í hann. Að þessu sinni fóru allir í gegn um gatið milli hellanna og varð úr hið mesta ævintýri. Mikið af grýlukertum og ís varð á leið okkar og við tókum okkur góðan tíma í ferðina. Vörðuhellir er kunnur meðal hellamanna fyrir að innst í honum á að vera um 70 cm há varða, hlaðin úr 10 steinum sem fallið hafa úr hellisloftinu. Á henni var á sínum tíma fjársjóður en það var 25 eyringur frá árinu 1921 og lá hann á bréfmiða sem var boðsmiði á samsæti í Nýja bíó niðri, sunnudaginn 17 júlí árið 1921, til heiðurs prófessor Eirík Briem. Ekki fundum við vörðuna í þessari ferð en frosna gestabók hinsvegar, sem ekki var unnt að skrifa í.  Samtals eru hellarnir yfir 800 metra langir en Vörðuhellir er talinn vera um 350 metrar og Litli-Björn í heildina um 450 metrar. Hann er því lengstur þeirra hella sem eru þekktir í Goðahrauni.

Mjög góðar myndir og upplýsingar um hellana er að finna í bókinni Íslenskir hraunhellar II eftir Björn Hróarsson.

Pálmi Hilmarsson

Emilía Jónsdóttir

myndir