isklifurEftir heldur slakan vetur hvað ísmyndun varðar og mikið um frestanir á ísklifurferðinni, var þann 13. apríl ekki hægt að bíða lengur. Ísklifur ferðinni var slegið saman við lokaferðina, sem að þessu sinni var fjallahjólaferð.

Eftir góðan morgunverð var lagt af stað frá Laugarvatni og var ferðinni heitið að Sólheimajökli, skriðjökli úr Mýrdalsjökli. Þegar þangað var komið var klifurbúnaði skipt á nemendur sem báru hann að jöklinum, þar voru mannbroddar settir undir skóna og farið yfir hvernig best er að ganga á jöklinum. Fundinn var hentugur staður til að klifra á, víð sprunga með mishallandi veggjum. Eftir smá sýnikennslu sáu nemendur um að koma fyrir svokölluðu toppankeri sem öryggislínan er fest í. Þegar allt var klárt var hægt að hefjast handa við að klifra. Fyrst þurfti að síga niður, en það reyndist sumum erfitt að fara fram af brúninni, áður en klifrað var upp aftur. Allir stóðu sig með stakri prýði. Þegar allir höfðu bæði klifrað og tryggt samnemanda var græjunum pakkað saman og gengið að bílastæðinu þar sem ferðalangarnir gæddu sér á samlokum og skyri.

Ekið var af stað en nú var stefnan sett á Hveragerði. Þegar þangað var komið var hópnum ekið upp kambana og að afleggjaranum að Ölkelduhálsi. Þar fengu allir afhent fjallahjól sem leigð voru af Iceland Activities. Hjólað var sem leið lá eftir malarveginum að Ölkelduhálsi þar sem beygt var af veginum og hjólað um misgrófa göngustíga niður í Klambragil og í Reykjadal. Þar var gert hlé á hjólreiðunum og slakað á í heita læknum sem þar rennur. Allir fundu hitastig við sitt hæfi en það stýrist þannig að eftir því sem ofar dregur í læknum verður hann heitari. Eftir baðið var svo hjólað niður í Hveragerði þar sem lúnir líkamar settust í bílinn sem brunaði á Laugarvatn.

Frábær ferð í alla staði.

 Smári Stefánsson

Nokkrar myndir til viðbótar í myndasafni