Kórinn gaf tóninn fyrir árlegan kynningardag skólans, sem var í gær, fimmtudag, en hann söng þrjú lög undir stjórn Eyrúnar Jónasdóttur í þann mund er gestir úr sex grunnskólum á Suðurlandi, vel á þriðja hundrað að tölu, gengu í bæinn. Við komuna var gestum skipt í hópa undir leiðsögn nemenda skólans og því næst liðuðust hóparnir um skólahúsið og heimavistirnar í tvo tíma þar sem nemendur og kennarar upplýstu þá um nám og líf í ML. Að því búnu var boðið til kvöldverðar þar sem eðlilega var þröngt á þingi, en matur var framreiddur á einum klukkutíma fyrir um 400 manns. Það var vel af sér vikið hjá Sveini bryta og fólkinu hans.
Að loknum kvöldverðinum héldu allir niður í íþróttahús tilað upplifa töfrana sem nemendur báru fyrir gesti á Blítt og létt, en um það er fjallað sérstaklega.
Dagurinn heppnaðist afar vel og það ber að þakka. Gríma Guðmundsdóttir bar hitann og þungann af heildarskipulaginu, kennarar og nemendur lögðu á sig aukavinnu, sem ekki er sjálfsagt, en það var bros á hverju andliti.
pms