Á dögunum fóru nemendur í áfanganum HNMF (Heilbrigðis- og næringafræði, matreiðsla) í vettvangsferð. Lagt var af stað kl. 14.30 og haldið í Mjólkursamsöluna á Selfossi þar sem Björn Baldursson tók á móti okkur og sagði frá fyrirtækinu og staðnum í máli og myndum, eftir kynningu fengu nemendur ískalda kókómjólk og einnig bragða á nýrri tegund sem var að koma úr framleiðslu, Ísey skvísu sem fór vel í nemendur.Þá var haldið af stað í Árnes þar sem Petrína og Björgvin eru með verslun og kjötvinnslu. Þau reka svínabú í Laxárdal og rækta meirihluta af öllu fóðri sjálf í Gunnarsholti. Þau voru með glærusýningu, fjölbreytt úrval úr eigin framleiðslu og sýndu okkur kjötvinnsluna og verslun.Síðast en ekki síst var Mika í Reykholti sótt heim og hjónin Michal og Bozena sögðu frá staðnum í stuttu máli og nemendur í HNMF fengu að fara í hlutverk kokksins og útbúa sína eigin pizzu með leiðsögn og kennslu. Það gekk svakalega vel og eins og einhver sagði: Það var geggjað gaman að gera sína eigin pizzu og þær voru mjög bragðgóðar.Annar hafði á orði að það var líka gaman að útbúa sína eigin pizzu og hún var ekki eins og hann hefði pantað sér. Svo þau voru tilbúnari að prófa nýja hluti þegar þau gerðu hana sjálf. Að lokum var boðið upp á dýrindis eftirrétt og nemendur fóru reynslunni ríkari og saddir heim á leið með Pálma sem keyrði í þessari ferð. Hér má sjá nokkrar myndir úr ferðinni.
María Carmen Magnúsdóttir kennari