KristinnFöstudaginn 1. apríl síðastliðinn fóru nemendur í fjórða bekk mála- og félagsfræðibrautar í vettvangheimsókn í Leikskólann Gullkistuna og Grunnskóla Bláskógabyggðar á Laugarvatni. Ferðin var rannsóknarverkefni í áfanganum ÍSL 633 Barnabókmenntir og svo skemmtilega vildi til að daginn áður var alþjóðlegur dagur barnabóka. Nemendur mynduðu tveggja manna rannsóknarhópa og hver hópur fékk eina bekkjardeild og átti að velja lesefni við hæfi. Einn hópur heimsótti hverja bekkjardeild í skólunum tveimur og las fyrir krakkana, fylgdist með undirtektum og spjallaði við þá. Einnig gerðu nemendur vettvangsathuganir hver á öðrum og munu vinna rannsóknarskýrslu um heimsóknina og rannsóknir sínar.

Móttökurnar voru hlýjar og góðar, bæði af hálfu nemenda og starfsfólks skólanna og gekk vettvangsheimsóknin eins og í sögu. Við viljum öll þakka nemendum og starfsfólki beggja skólanna fyrir okkur. Rannsóknarhópurinn úr Menntaskólanum var vel undirbúinn og allir höfðu greinilega valið bækur af kostgæfni og æft sig vel. 4.MF þakka ég fyrir góða vettvangsferð. Myndir frá heimsókninni eru inni á myndasíðunni.

Ingibjörg Jónsdóttir Kolka, íslenskukennari