frakklandsferdMiðvikudaginn 3. apríl héldu fjórtán nemendur úr frönskuáfanganum FRA 303 til Parísar ásamt kennara sínum og dvöldu þar til 7. apríl. Heimsborgin tók á móti hópnum  með ágætis veðri en þó nokkuð köldu og var tíminn vel nýttur til að skoða öll helstu kennileiti borgarinnar.

 Hópurinn dvaldi á sjamerandi og mjög gömlu hóteli í Latínuhverfinu, Hôtel Stella, ekta frönsk stemning þar. Sorbonne háskóli, Notre-Dame dómkirkjan og áin Signa  í næsta nágrenni. Að þessu sinni fór hópurinn í skemmtilega og fróðlega gönguferð með Parísardömunni, Kristínu Jónsdóttir, um Latínuhverfið og Mýrina. Við skoðuðum Eiffel-turninn,  Breiðgötuna Champs-Élysées, Louvre-safnið, umhverfi Pompidou safnsins, Montmartre hverfið og Sacré-Cœur, Père-Lachaise kirkjugarðinn, nágrannafrúna Notre-Dame og farið var í kvöldsiglingu á Signu. Einn af  hápunktum ferðarinnar var heimsókn í Versali, eina glæsilegustu höll Evrópu með sínum fallegu hallargörðum.

 

Einhverjir nýttu líka tímann til að kíkja í búðir þá séstaklega ákveðna fatabúð en það voru líka ófáar ferðirnar sem hópurinn fór í Monoprix (nokkurs konar Hagkaup) til að kaupa sér eitthvað gott í svanginn.

 Nemendur æfðu sig í frönsku og kynntust heillandi borg. Óhætt er að segja að ferðin hafi verið öllum lærdómsrík og skemmtileg. Við heimkomuna vinna nemendur verkefni, flytja fyrirlestra og útbúa plaköt um Parísarferðina.

Það er gaman og gefandi að fara með nemendum í svona ferð.

Gríma Guðmundsdóttir, frönskukennari.

 Myndir úr ferðinni má sjá hér