Miðvikudaginn 28. mars héldu ellefu nemendur úr frönskuáfanganum FRA 303 til Parísar ásamt kennara sínum og dvöldu þar til 1. apríl. Heimsborgin tók á móti hópnum með blíðskaparveðri og var tíminn vel nýttur til að skoða öll helstu kennileiti borgarinnar.
Hópurinn dvaldi á sjamerandi og mjög gömlu hóteli í Latínuhverfinu, ekta frönsk stemning þar. Sorbonne háskóli, Notre-Dame dómkirkjan og áin Signa í næsta nágrenni.
Mikið var gengið og fannst sumum nóg um en neðjarðarlestir voru óspart notaðar til að komast staða á milli. Hópurinn skoðaði t.d. Eiffel-turninn, Breiðgötuna Champs-Élysées, Louvre-safnið, umhverfi Pompidou safnsins, Montmartre hverfið og Sacré-Cœur, Père-Lachaise kirkjugarðinn, nágrannafrúna Notre-Dame og farið var í kvöldsiglingu á Signu. Einn af hápunktum ferðarinnar var heimsókn í Versali, eina glæsilegustu höll Evrópu með sínum fallegu hallargörðum.
Einhvejir nýttu líka tímann til að kíkja í búðir þá séstaklega ákveðna fatabúð en það voru líka ófáar ferðirnar sem hópurinn fór í Monoprix (nokkurs konar Hagkaup) til að kaupa sér nesti fyrir lautarferðirnar.
Nemendur æfðu sig heilmikið í frönsku og kynntust heillandi borg. Óhætt er að segja að ferðin hafi verið öllum lærdómsrík og skemmtileg. Við heimkomu unnu nemendur verkefni, fluttu fyrirlestra og útbjuggu plaköt um Parísarferðina.
Það er gaman og gefandi að fara með nemendum í svona ferð. Skólanum vil ég færa kærar þakkir fyrir stuðning við undirbúning og framkvæmd ferðalagsins.
Gríma Guðmundsdóttir, frönskukennari.
Nokkrar myndir úr ferðinni:
Á Signubökkum
Götulistamenn við Saint-Louis eyju, ráðhús Parísarborgar í baksýn.
Helgi hirðljósmyndari fyrir framan Speglasalinn
Pique-nique
Hópurinn við Versali
Mikið af myndum til viðbótar í myndasafni.