Menntaskólinn að Laugarvatni hefur síðastliðin þrjú ár tekið þátt í Erasmus+ verkefni sem ber heitið ShoW (Shapes of Water) með skólum frá Portúgal og Terceira, Tékklandi og Finnlandi. Síðasta ferðin í þessu verkefni var farin 1.-5. maí sl. Tveir kennarar og fjórir nemendur frá hverju landi komu þá saman á Terceira, sem er ein af Azor-eyjum og tilheyra Portúgal. Þrátt fyrir að Azor-eyjar séu okkar næstu nágrannar í suðri er frekar erfitt að komast þangað en algjörlega þess virði. Nemendur eignuðust marga vini og fengu að upplifa óspillta náttúru Terceira sem á margt sameiginlegt með Íslandi. Hitastigið var þó töluvert hærra en hér heima. Unnin voru ýmis verkefni bæði á meðan á ferðinni stóð og eftir hana. Fengum að fara í gegnum jarðvarmaorkuver og jarðhitasvæði. Farið var inn í eldfjallagíg og gengum við margar fallegar leiðir. Hópurinn fór í hvalaskoðun og sáum við búrhvali og höfrunga. Synt var í sjónum en þurftum að hafa varann á því að rekast ekki á portúgölsk herskip (holdýr sem heita á latínu Physalia physalis ). Allsstaðar var boðið upp á góðan mat, en þar er mikið um nautakjöt, osta og alls kyns sjávarfang. Svo fræddumst við um sögu eyjunnar, um mikilvægi hennar í verslun og stríði til forna, um hernám Bandaríkjamanna og um gríðarlegan jarðskjálfta sem skók eyjuna árið 1980. Í skjálftanum hrundu margar byggingar í bænum Angra do Heroismo en ákveðið var að endurbyggja húsin og bæjarímyndina og er hún nú undir vernd UNESCO. Í bænum búa um 35.000 manns en á eyjunni allri 53.000 manns.
Við erum öll gríðarlega þakklát fyrir að fá að fara til Terceira. Þarna eru ekki margir ferðamenn og stemningin er afslöppuð og góð. Nú er Terceira í hjörtum okkar og langar okkur öll að koma þangað aftur.
Heiða Gehringer og María Carmen Magnúsdóttir
Hér eru myndir úr ferðinni.
Slóð á youtube frá nemendum sem kynntu verkefnið: