FOMEL er foreldrafélag Menntaskólans að Laugarvatni og nýtur nemendasamfélagið við skólann góðs af þeirra góða starfi. Foreldrafélagið býður gjarnan upp á ýmis konar fyrirlestra og fræðslu fyrir nemendur og starfsfólk. Mánudaginn 16. október kom á sal til okkar, í boði FOMEL, Dr. Lára G. Sigurðardóttir læknir og doktor í lýðheilsuvísindum. Markmiðið með heimsókn hennar var að fá fræðslu um tóbak og þá áhættuþætti sem neysla þess getur orsakað. Allir nemendur skólans, ásamt kennurum og nokkrum nemendum frá Bláskógaskóla á Laugarvatni hlýddu á fyrirlesturinn sem var mjög fræðandi og áhugaverður. Lára fór þar yfir rannsóknir sem hafa staðið yfir undanfarin ár og niðurstöður þeirra. Ósvífinni markaðssetningu nikótínpúða með ávaxtabragði hefur verið markvisst beint að ungu fólki og börnum og því mikilvægt að fara yfir með unga fólkinu hverjar afleiðingar neyslu nikótíns geta verið. Villandi markaðssetning ýjar að því að ekki sé um neikvæðar afleiðingar að ræða við neyslu nikótíns en rannsóknir sýna fram á alvarlegar afleiðingar á heilsu, bæði líkamlegrar og andlegrar.  

Það er margt sem mælir gegn notkun nikótínpúða en samt vitum við að töluverð aukning hefur orðið á notkun þeirra á meðal ungmenna á Íslandi. Markaðssetning er miðuð að yngri aldurshópum og tiltölulega auðvelt er að nálgast efnin. Þetta er því nokkuð strembin vandi sem kemur til með að þurfa auka krafta til þess að takast á við á næstu árum.

Áhrifin sem hljótast af notkun tóbaks eru nokkuð víðtæk. Hjarta- og æðakerfið verður fyrir töluverðum áhrifum vegna aukins flæðis adrenalíns. Heilinn er kannski einna viðkvæmastur fyrir áhrifunum en við vitum að heila- og taugaþroski er yfirleitt á viðkvæmu stigi á unglingsárunum þegar framheilinn hefur enn ekki náð fullum þroska og mikilvægum taugatengingum. Notkun nikotíns getur því haft mikil áhrif á svefn, tengslamyndun, rökhugsun og ekki síður námsgetu og því augljóst að vinna þarf ötullega að fræðslu ásamt forvörnum til þess að stemma stigu við notkuninni á meðal ungmenna.

Við þökkum Dr. Láru G. Sigurðardóttur fyrir komuna og hennar innlegg í fræðslu og forvörnum.

Helga Kristín Sæbjörnsdóttir, íþróttakennari og forvarnarfulltrúi í afleysingum 2023.