Í síðustu viku hélt kórinn sína árlegu jólatónleika í Skálholtskirkju. Haldnir voru tvennir tónleikar og var húsfyllir á báðum þeirra. Það er jafnan hátíðleg stund þegar kórinn syngur inn jólin fyrir tónleikagesti sína.
Á dagskránni voru gullfalleg og jólaleg lög sem snertu við gestum. Þar má nefna allt frá Kveðju og Fallegur dagur eftir Bubba Morthens yfir í Það snjóar, Klukknanna köll, Fögur er foldin og Ó helga nótt. Eins var kórnum skipt upp eftir röddum og bekkir tóku lög saman. 1. bekkur flutti Happy Xmas af öryggi þrátt fyrir stuttan tíma í kórnum. 2. bekkur söng Hátíð fer að höndum ein og 3. bekkur Heims um ból. Raddirnar Sópran og Alt fluttu saman Himinganga á meðan Bassi og Tenór fluttu Bob Dylan lagið Blowing in the wind.
Skálholtskirkja ljær söngnum vissan heilagleika og ungar, bjartar raddir menntskælinga lyfta tónlistinni upp í hæðstu hæðir. Vissulega erum við sem komum að kórnum ekki alveg að fullu hlutlaus en kórinn, einsöngvarar og hljóðfæraleikarar eiga hrós skilið fyrir frammistöðu. Eyrún Jónasdóttir, kórstjóri, temur raddi og framkallar heildarsvip sem er með engu líkur. Til þess að þetta gangi allt saman upp liggur að baki mikil vinna og á Eyrún heiður skilinn fyrir sín störf.
Hljóðfæraleikarar tónleikanna voru Magnús Arngrímur Sigurðsson og Ragnar Dagur Hjaltason sem spiluðu á píanó, Kamilla Rós Gústafsdóttir á gítar, Ívar Dagur Bryndísarson Sævarsson á gítar og bassa og Axel Ýmir Grönli á bassa. Þess má geta að kórfélagar kynntu öll atriði kvöldsins.
Einnig er vert að minnast á kórstjórnina sem stóð sig virkilega vel í tengslum við allt skipulag og miðasölu. Í kórstjórn sitja Hekla Dís Sigurðardóttir formaður, Emilía Sara Kristjánsdóttir gjaldkeri, Kolfinna Sjöfn Ómarsdóttir ritari og meðstjórnendurnir Sjöfn Lovísa Bahner Jónsdóttir og Þórey Kristín Rúnarsdóttir.
Ég mæli með að þið fylgið Menntaskólanum að Laugarvatni á facebook. Þar er hægt að sjá á myndband af tónleikunum frá húsbónda skólans, Pálma Hilmarssyni.
Hér fylgja nokkrar myndir af viðburðinum.
Jólakveðja, Margrét Elín verkefnastjóri kórs ML