Nýlega héldu fimm nemendur til Parísar  og dvöldu þar ásamt kennara sínum í fjóra daga. Ferðin er hluti af svokölluðum Parísaráfanga sem er í boði fyrir frönskunemendur á þriðja ári. Í áfanganum fræðast nemendur um borgina, vinna ýmis verkefni og undirbúa sig sem best fyrir menningarferðina.

Heimsborgin tók á móti litla hópnum með blíðskaparveðri og var tíminn vel nýttur til að skoða öll helstu kennileiti borgarinnar. 

Haldið var út mánudaginn 18. mars. Við komuna til Parísar beið okkar leigubíll sem flutti hópinn örugglega á hótel í 9. hverfi í grennd við Rauðu Mylluna. Þriggja störnu hótel og leigubíll, heldur meiri lúxus en í fyrri Parísarferðum! Þegar hópurinn var búinn að koma sér fyrir á huggulegu hóteli var strax haldið út í göngutúr um sjarmerandi Montamarte hverfið,  á slóðir Amélie Poulain og upp að Sacré-Coeur. Götulistamenn og mikið líf. Rákumst á hóp af syngjandi rauðklæddu fólki sem minntist stofnunar Parísarkommúnunnar þann 18. mars 1871. Það vildi svo skemmtilega til að 18. mars er einnig afmælisdagur einnar úr nemendahópnum og var hún af því tilefni krýnd drottning af götulistamanni. Hópurinn hélt svo upp á afmælsidaginn á Les Pipos, sjarmerandi og ekta frönskum stað í Latínuhverfninu. Fallegt kvöld í Latínuhverfinu þar sem nemendur sáu margar merkar byggingar, m.a. Le Panthéon og Sorbonne háskóla þar sem finna má nafn Snorra Sturlusonar ritað á einn vegginn.

Á öðrum degi var hópurinn kominn með  métromiða í hendur og voru honum nú allir vegir færir. Fyrst lá leiðin í kirkjugarð, Père-Lacahaise krikjugarðinn í 20. hverfi. Það var yndislegt að rölta um garðinn við fuglsöng í dásamlegu veðri, fjarri skarkala borgaraninnar. Þar heilsaði hópurinn upp á Oscar Wilde, Jim Morrison og fleiri fræga. Úr friðsældinni lá leiðin að kanónunum tveimur, Eiffelturninum og Sigurboganum

Þriðji dagurinn var ekki síðri og að mati nemenda var heimsóknin til Versala undir leiðsögn Kristínar Jónsdóttur Parísardömu hápunktur ferðarinnar. Ein glæsilegasta höll Evrópu með mikilfenglegum speglasal og fallegum hallargörðum. Skemmtilegast var þó að upplifa lautarferð að frönskum sið og spássera um yndislega sveitaþorpið hennar Maríu Antoinette. Nokkuð skemmtileg tenging í þetta sinn því að meðal nemanda voru bæði María og Antonía. Dagurinn var svo toppaður með frábærri siglingu á Signu.

Á fjórða degi byrjuðum við á skoða fallega Place de Vosges torgið, röltum um Mýrina, kíktum á Stravinsky gosbrunninn og Pompidou bygginguna áður en haldið var á fyrirheitna staðinn: hið mikla Louvre safn. Síðasta kvöldinu eyddum við svo í notalega hverfinu okkar á Montmartre hæðinni.

Nemendur æfðu sig í frönsku og kynntust heillandi borg. Óhætt er að segja að ferðin hafi verið öllum lærdómsrík og skemmtileg. Við heimkomuna vinna nemendur ýmis verkefni, klippa saman myndbönd, útbúa möppu eða bók um Parísarferðina. Sérstök kynning á afrakstrinum veður á námsmatstíma í maí. Það er virkilega gaman og gefandi að fara með nemendum í svona ferð. Ég þakka hópnum í ár fyrir góða og skemmtilega samveru!

Hér má skoða fjölmargar myndir úr ferðinni.

Gríma Guðmundsdóttir, frönskukennari.