Hin árlega forvarnarferð nýnema Menntaskólans að Laugarvatni er hluti af forvarnastefnu ML sem hefur einkunnarorðin: Fræðsla – Aðhald – Umhyggja. Markmiðið er að stuðla að heilbrigðum lífsháttum og jákvæðri lífssýn nemenda sinna og vinna gegn hverskyns áhættuhegðun. 

Forvarnarferðin var á dagskrá 23. september sl. þar sem farið var til Reykjavíkur á fallegum góðviðrisdegi. Ferðin hófst strax eftir hádegismat þar sem haldið var með langferðarbíl sem Pálmi Hilmarsson húsbóndi ók að venju. 
Haldið var í Ármúla 11, húsakynni Dale Carnegie þar sem Magnús Stefánsson fyrirlesari og þjálfari tók á móti okkur og 56 nýnemum. Þar var unnið í vinnustofum með sjálfsmynd og sjálfstæði, gildi, ábyrgð, heilsu og líðan og jákvæða og neikvæða leiðtoga og hvernig það skiptir máli að tilheyra hópi en líka að fá að vera á sínum eigin forsendum. Eftir forvarnarvinnu þessa var haldið í GG Sport þar sem nemendur áttu kost á því að skoða og versla útivistarvörur á sérstökum afsláttarkjörum. 

Hápunktur ferðarinnar var svo í Egilshöll þar sem nemendur ásamt okkur Pálma og Leó Inga umsjónarkennara spiluðum saman keilu á 12 brautum. Hver braut fann nafn á sinn hóp og á leiðinni heim að Laugarvatni var farið yfir stigin. Pálmi hefur iðulega unnið stigakeppni og eins og undanfarin ár er keppst við að vinna hann. En það er skemmst frá því að segja að: Pálmi vann! 
Þar sem þessi ferð var á mánudegi, sama dag og kór er á dagskrá voru lögin æfð og spiluð á leiðinni til baka við góðar undirtektir og nemendur vildu endilega senda staðfestingu þess á kórstjóra sem var gert.

María Carmen forvarnarfulltrúi ML