Miðvikudaginn 9. október fóru kennarar í umhverfis- og vistfræði og nemendur fyrsta árs til Þingvalla. Markmið ferðarinnar var að kynna okkur þjóðgarðinn, lífið í þjóðgarðinum, þá þjónustu sem þar er boðið upp á og áskoranir.

Þingvellir skörtuðu sínu fegursta þennan dag, kalt var í veðri en haustlitir í gróðrinum og fjöllin hvít. Torfi Stefán Jónsson landvörður á Þingvöllum tók vel á móti okkur þar sem Valhöll stóð áður og saman röltum við að Flosagjá eða Peningagjá eins og hún er gjarnan kölluð. Þaðan var farið yfir Öxará þar sem stórir urriðar sáust vel en talið er að á þriðja þúsund fiskar séu á hrygningarstöðvum urriðans sem er aðeins tæplega kílómetra langur kafli. Frá Öxará var gengið í Almannagjá að Drekkingarhyl þar sem Torfi fór vel yfir refsingar og fullnustu þeirra á árum áður og í lokin gengum við upp á Hakið með viðkomu á Lögbergi. Í gestastofunni fengum við fyrirlestur um þjóðgarðinn, UNESCO, vatnasvið Þingvallavatns og innviðauppbyggingu til að vernda staðinn fyrir álagi vegna sívaxandi fjölda ferðamanna.

Ferðin tókst í alla staði mjög vel og þökkum við Torfa og Þjóðgarðinum kærlega fyrir leiðsögnina, Pálma fyrir að keyra okkur og veðurguðunum fyrir að skarta sínu fegursta þennan dag. Það fer ekki á milli mála að íslensk náttúra er auðlind sem okkur ber að fara vel með.

Hér eru myndir sem teknar voru í ferðalaginu

Jóna Björk og Margrét Elín kennarar áfanga.