Það eru mikil hlunnindi að kenna jarðfræði á Íslandi og ekki síst á Laugarvatni enda bíður nágrenni Laugarvatns upp á fjölbreyttar jarðfræðimyndanir. Í jarðfræðiáfanga skólans er því farin dagsferð um svæðið til að tengja raunveruleikann við það sem fjallað er um í skólabókunum.

Hin árlega jarðfræðiferð var farin fimmtudaginn 3. október á fallegum haustdegi og í þetta sinn var eðlisfræðiáfanginn á þriðja ári samtvinnaður inn í ferðina enda er keyrt bæði fram hjá Nesjavallvirkjun og virkjununum við Sogið. Eftir að hafa horft út um gluggann á dyngjur frá nútíma og móberststapa og móbergshryggi frá síðust ísöld var stoppað á Þingvöllum. Þar var gengið um sigdalinn og helstu ferðamannastaðirnir skoðaðir. Eftir göngu um Þingvelli lá leiðin á Nesjavelli en vegna framkvæmda við stöðina gátum við ekki farið inn á svæðið en af planinu ofan við virkjunina er gott útsýni yfir háhitasvæðið norðan í Hengli sem nú hefur verið virkjað til rafmagnsframleiðslu ásamt því að anna húshitun stórs hluta höfuðborgarsvæðisins. Næst var stoppað í Írafossstöð þar sem Guðmundur Finnbogason tók á móti okkur og leiddi okkur um sögu virkjuna í Soginu og um stöðvarhúsið sjálft sem hvoru tveggja var mjög áhugavert. Áður en við komumst í kærkominn og síðbúinn hádegismat í Minniborgum gerðum við stutt stopp við námuna í Seyðishólum sem nú er orðið nokkurs konar þversnið af dæmigerði eldstöð frá nútíma. Eftir hádegi var keyrt að Geysi sem er að sjálfsögðu skylda í svona ferðum og beðið eftir að minnsta kosti tveim gosum úr Strokk áður en haldið var heim á leið.

Heim komum við í tæka tíð fyrir síðdegiskaffi hjá Svenna, mettuð af jarðfræðilegum hugtökum og fróðari um jarðsögu þessa svæðis og nýtingu þess. Kennararnir Jóna Björk og Jón Snæ. sem einnig var bílstjóri ferðarinnar, þakka nemendum fyrir ferðina, áhugasamir og skemmtilegir ferðafélagar.

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir úr ferðinni.