Nemendafélagið Mímir stóð fyrir söngkeppni í íþróttahúsinu á Laugarvatni á hrekkjavöku, fimmtudaginn 31. október. Þann sama dag bauð skólinn flestum 10. bekkingum á Suðurlandi í heimsókn í ML og gafst þeim tækifæri til að skoða skólann og ljúka svo deginum á Blítt og létt. Kynningardagskráin tókst einkar vel og vil ML þakka öllum þeim góðu gestum sem komu til að njóta dagsins með okkur.
Söngkeppnin var hin glæsilegasta, venju samkvæmt og voru 11 atriði skráð til leiks í keppninni. Dómarar kvöldsins voru Fríða Hansen, Júlí Heiðar Halldórsson og Þórdís Björk Þorfinnsdóttir og þau höfðu á orði við verðlaunaafhendinguna að afar mjótt hefði verið á milli verðlaunasæta og gríðarlega erfitt fyrir dómarana að gera upp hug sinn. Keppnin í heild sinni hafði á sér glæsilegan brag og greinilega miklir sönghæfileikar sem leynast í Menntaskólanum að Laugarvatni.
Það kom fram í máli kynna kvöldsins að Blítt og létt, söngkeppni nemendafélagsins Mímis, á 35 ára afmæli ár en hún var fyrst haldin árið 1989. Kynnarnir voru þau Katrín Ölversdóttir og Ragnar Leó Sigurgeirsson sem útskrifuðust bæði úr ML vorið 2024. Þau héldu uppi stuði og stemningu með léttri sviðsframkomu og góðu glensi. Einnig átti Þrándur Ingvarsson, einnig útskriftarnemi vorsins 2024, stutta innkomu með frumsamið atriði sem hann skemmti áhorfendum með í samstarfi við hljómsveit hússins. Húsbandið var eins og undanfarin ár snillingarnir í Stone Stones.
Úrslit kvöldsins urðu þau að Hjördís Katla Jónasdóttir fékk verðlaun fyrir skemmtilegasta atriðið en hún söng lagið Afi eftir Björk Guðmundsdóttur og með henni í bakröddum voru þeir Daníel Aron Bjarndal Ívarsson og Ragnar Dagur Hjaltason. Í þriðja sæti urðu Vésteinn Loftsson og Sigurður Emil Pálsson sem sungu saman lagið Ekkert breytir því með Sálinni hans Jóns míns. Annað sætið vermdi Kolfinna Sjöfn Ómarsdóttir, þriðja árið í röð en hún gerði laginu Andvaka góð skil en lagið söng hún í útsetningu sem Guðrún Árný, höfundur lagsins, tók með hljómsveitinni Dimmu. Sigurvegari kepninnar varð Þórkatla Loftsdóttir með frumsamið lag sem ber nafnið Rokkstig og var flutningur hennar bæði fumlaus og öruggur, við hlökkum til að sjá hana á sviðinu í stóru keppninni. Þess má til gamans geta að Þórkatla og Vésteinn, sem verma fyrsta og þriðja sæti keppninnar, eru systkin.
Jóna Katrín skólameistari