Freyja Rós Haraldsdóttir prýðist mörgum höttum við Menntaskólann að Laugarvatni. Hún er jafnréttisfulltrúi skólans ásamt því að sinna kennslu og starfi gæðastjóra. Freyja hefur unnið ötult starf undanfarin ár við að beina sviðsljósinu að einelti og annars konar ofbeldi. Almennt er talað um EKKO-mál, sem stendur fyrir einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi. Málaflokkurinn er víðfeðmur og ekki heiglum hent að stíga af varnarleysi inn í hringiðu umræðuefnis sem hefur skekið þjóðfélagsumræðuna endurtekið undanfarin ár.
Viðfangsefnið er flókið og nauðsynlegt að nálgast það af æðruleysi þess sem er meðvitaður um mikilvægi réttra viðbragða og þá staðreynd að verkefninu lýkur aldrei. Undir styrkri forystu Freyju Rósar hefur Menntaskólinn að Laugarvatni markað sér stefnu í EKKO málum og unnið að því að vinna málin sífellt betur. Allir ferlar eru í sífelldri rýni þeirra sem vinna eftir þeim og áhersla lögð á að leiðarljós ML skulu vera trúnaður, traust, virðing, varfærni, hæfni og hugrekki. Áhugasömum er bent á að kynna sér gögn er tengjast EKKO málaflokknum á heimasíðu skólans.
Af þessu tilefni er Freyja Rós handhafi hvatningarverðlauna Heimilis og skóla sem afhent voru henni við hatíðlega athöfn á Degi gegn einelti þann 8. nóvember síðastliðinn. Verðlaunin afhentu þeir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra og Jóhann Gunnarsson, formaður Heimilis og skóla í Tækniskólanum. Fagráð eineltismála valdi Freyju úr innsendum tilnefningum og frétt um málið og rökstuðning fagráðsins með verðlaunaafhendingunni má lesa hér.