Nemendur í 2. bekk á félags- og hugvísindabraut, í Menntaskólanum að Laugarvatni tóku þátt í vitundarvakningunni #ÉGLOFA mánudaginn 7. apríl sl. Margrét Elín Ólafsdóttir kennari kynnti í þroskasálfræðitíma vitundarvakningu Barnaheilla sem snýst um að vekja almenning til vitundar um umfang kynferðisofbeldis gegn börnum á Íslandi og hvernig megi bregðast við vandanum.  

Í tímanum fræddust nemendur um mikilvægi þess að börn fái að lifa í öryggi og njóta virðingar. Rætt var um réttindi barna, mikilvægi þess að eiga trausta fullorðna í kringum sig og hvernig samfélagið getur tekið virkan þátt í að vernda börn gegn ofbeldi. Sem táknrænan þátt í verkefninu máluðu nemendur nögl sína á litla fingur með dökkgrænu naglalakki til að sýna stuðning sinn við baráttuna gegn kynferðisofbeldi og loforð um að standa með börnum.  

#ÉGLOFA er mikilvæg áminning um að við getum öll haft áhrif og að það skiptir máli að hlusta, bregðast við og standa með þeim sem þurfa á því að halda. 

Elena R. Marquez Gunnlaugsdóttir, ritnefndarformaður nemendafélagsins Mímis.