Eftir langt og gott sumarfrí hefur nýtt skólaár í Menntaskólanum að Laugarvatni hafist með tilheyrandi fjöri. Að þessu sinni voru það 53 nemar sem tóku sín fyrstu skref sem ML-ingar og voru þeir boðnir hjartanlega velkomnir af félögum nemendafélagsins Mímis þann 18. ágúst sl. Dagskráin var fjölbreytt, með leikjum og viðburðum sem gerði nýnemunum kleift að kynnast bæði hver öðrum og skólanum sjálfum.
Daginn eftir komu eldri nemendur aftur á heimavistirnar og hófst þá hefðbundið skólastarf. Það var þó ekki langt að bíða eftir meiri skemmtun, því á föstudeginum var kennslu lokið um hádegi og fór fram skírn nýnema. Eldri nemendur fylgdu nýnemum skrautlega niður að Laugarvatninu þar sem fór fram sérstök athöfn sem markaði inngöngu þeirra í samfélag ML-inga.
Að lokinni skírn var stemningunni haldið lifandi með skemmtilegu balli í íþróttarhúsinu, þar sem allir nemendur fögnuðu nýju skólaári og innkomu í skólann. Með því lauk nýnemaviku ML 2025 og lofar hún góðu fyrir skemmtilegt og samstillt skólaár fram undan.
Elena R. Marquez Gunnlaugsdóttir, ritnefndarformaður nemendafélagsins Mímis.



