Hin árlega jarðfræðiferð var farin mánudaginn 6. október og að vanda sá Pálmi húsbóndi um að keyra rútuna og Jóna Björk um leiðsögn. Veðrið var mjög íslenskt þennan dag, í raun ekkert veður bara ýmiskonar sýnishorn, sól, haglél, rigning, slydda og þoka en við hittum ágætlega á gott veður í öllum stoppum.

Fyrsta stopp var á Þingvöllum þar sem Gunnar Grímsson landvörður tók á móti okkur og fræddi okkur um jarðfræði staðarins. Að því loknu keyrðum við um Hengil og síðan í Ljósafossvirkjun þar sem Gustav og Edda Sigurdís starfsmenn Landsvirkjunar tóku á móti okkur og gáfu okkur góða stund í að skoða orkusýninguna sem þar er. Eftir hamborgara á Minniborg var ekið um Flúðir að Brúarhlöðum og þaðan að Geysi þar sem Strokkur stóð sína vakt og gaus nokkrum sinnum áður en haldið var heim á leið.

Ferðin tókst í alla staði mjög vel, nemendur sýndu viðfangsefninu áhuga og vonandi eykur þetta skilning þeirra á jarðfræði Íslands og uppsveitanna sem er einstök á heimsvísu.

Jóna Björk jarðfræðikennari