Shapes of Water er yfirheitið á Erasmus+ verkefni sem fimm alþjóðlegir skólar taka þátt í og staðið hefur yfir í rúm tvö ár. Nemendur frá Menntaskólanum að Laugarvatni hafa tekið þátt fyrir Íslands hönd og farið á vegum þessa verkefnis til Portúgals, Finnlands og Tékklands. Síðasti liður í þessu verkefni er að fara til Azoreyja í byrjun maí á næsta ári. Núna á haustdögum tókum við á móti gestum frá þessum löndum og sýndum þeim form vatns í nærumhverfi okkar. Dagskráin hjá okkur var frá 3.-7. október.  

Gestirnir voru 25 talsins, þar af 16 nemendur og 9 kennarar. Þau komu að Laugarvatni 2. október og komu sér fyrir í Héraðsskólanum þar sem þau gistu á meðan á dvöl þeirra stóð og voru 3 kennarar og 4 nemendur frá ML þeim innan handar. Þau snæddu morgunmat með okkur í ML og þaðan fórum við í verkefni og ferðir. Vikuna sem þau voru hér var þéttsetin dagskrá enda mikið að sjá og skoða enda heilmargt sem Ísland hefur uppá að bjóða sem tengist vatni og öllum þeim formum sem það getur á sig tekið. 

Fyrsta daginn vorum við á Laugarvatni. Við fengum leiðsögn um Sandárvirkjun við Eyvindartungu, suðum egg í hvernum við Laugarvatn og fórum standbretti. Eftir það bauð Bláskógabyggð gestum okkar í sund þar sem þeir prófuðu heita potta en líka þann kalda. Að lokum grilluðum við ekta íslenskar pylsur með öllu. Gestirnir voru vakandi fram eftir í von um að sjá norðurljós en þau létu ekki sjá sig þann daginn. 

Annan daginn fórum við í lítinn “Gullinn hring”. Við byrjuðum á að ganga upp að Brúarfossum, fórum þaðan í Friðheima og fengum kynningu og dásamlega súpu. Eftir það fórum við í Gömlu laugina á Flúðum og svo að skoða Brúarhlöð, Gullfoss og Geysi. Að lokum fengum við kynningu á afurðum í Efsta-Dal sem vakti mikla lukku, það eina sem hefði fullkomnað daginn hefði verið að sjá norðurljósin sem gestirnir okkar þráðu svo innilega að sjá. 

Þriðji dagurinn var annasamastur. Þá fórum við að Sólheimajökli, til Víkur og í Reynisfjöru. Á leiðinni heim skoðuðum við Skógarfoss, Seljalandsfoss og Gljúfrabúa. Þegar við komum heim bauð Fontana gestum okkar í rúgbrauðskynningu og bað. Veðrið var ljúft og flestir prófuðu að dýfa sér í Laugarvatn og fara í gufu. Um kvöldið fengum við ekta íslenska kjötsúpu í kvöldmat. Fullkominn dagur en aldrei sáum við norðurljósin. 

Fjórða og síðasta daginn byrjuðum við í kynningu hjá Brunavörnum Árnessýslu. Krakkarnir fengu að prófa að sprauta úr slöngum með mismunandi þrýstingi. Næst var farið á sýningu í Ljósafossstöð og svo fengum við að skoða Írafossvirkjun. Að því loknu fengum við kynningu á Þingvöllum og fræðslu um sögu, líf og vatn í þjóðgarðinum. Um kvöldið fengum við dýrindis þriggja rétta kvöldverð a l’a Svenni kokkur. Margir höfðu aldrei smakkað lambakjöt og áttu ekki orð yfir hversu gómsætt það var. Rúsínan í pylsuendanum var sú, að þegar við vorum búin að borða, kom íslenskur nemandi til okkar og sagði ósköp rólega að það væru norðurljós úti. Mannskapurinn gjörsamlega trylltist og hljóp út æpandi. Fólk grét, hló og hrópaði yfir norðurljósunum sem sáust í örfáar mínútur.  

Þetta var ævintýraleg ferð þar sem bæði heimamenn og gestir nutu alls hins besta sem Ísland og heimabyggð hafði upp á að bjóða. Við vorum líka mjög ánægðar með hópinn og til okkar komu krakkar og þökkuðu okkur fyrir bestu viku lífs þeirra. Þeim fannst Íslendingar svo vinalegir og alls staðar fengum við hlýtt viðmót.  

Hjartans þakkir til allra sem gáfu góðar gjafir og til þeirra sem tóku á móti okkur, þið gerðuð ferðina ógleymanlega.  

Við leyfum myndunum að tala sínu máli. 

Ásrún Ester Magnúsdóttir 

Heiða Gehringer og 

María Carmen Magnúsdóttir