Söngvakeppni Menntaskólans að Laugarvatni ber heitið Blítt og létt og kallast þannig á við Árna úr Eyjum og Oddgeir Kristjánsson sem sömdu texta og lag við þetta fallega Eyjalag. Það var því aldeilis viðeigandi að sigurvegarar keppninnar þetta árið sigruðu með lagi sem kallast á við fortíðina og gullöld hipparokksins. Sigurvegari Blítt og létt árið 2022 er Óskar Snorri Óskarsson í fararbroddi hljómsveitarinnar Kóma, hinu glæsta ML-bandi. Þeir tóku Hljómalagið Lover Man eftir Gunnar Þórðarson af Hljómaplötunni ´74 sem glöggir lesendur giska eflaust rétt á að kom út á því herrans ári 1974. Hægt er að hlýða á lagið á jú-tjúb og eru aðdáendur keppninnar hvattir til að hlýða á lagið í vetur til að undirbúa sig andlega undir sjónvarpsframkomu hljómsveitarinnar Kóma í Söngkeppni framhaldsskólanna 2023. Auk Óskars Snorra eru í hljómsveitinni Þrándur Ingvarsson á trommur, Hákon Kári Einarsson á hljómborð, Arnar Högni Arnarsson á bassa og Ívar Dagur Bryndísarson Sævarsson á gítar. Flutningur þeirra á laginu var fumlaus og fagmannlegur og voru þeir vel að sigrinum komnir enda dómnefndin samhljóma í vali sínu á sigurvegara. Dómnefndin þetta árið var skipuð Pálma Gunnarssyni, Gugusar og Elín Ey og sendir Menntaskólinn þeim sínar bestu kveðjur og þakkir fyrir dómarastörfin.  

Það er ekki heiglum hent að setjast í dómarasæti í keppni sem þessari. Þau 12 atriði sem kynnt voru til sögunnar á keppnisdegi þann 9. nóvember síðastliðinn voru hvert öðru betra. Miklir hæfileikar, dugnaður, elja og áhugi skína úr atriðunum og sannarlega má segja að áhorfendur keppninnar hafi fengið tónlistarviðburð í hæsta gæðaflokki þetta fimmtudagskvöld. Við hér í ML erum sannarlega stolt af þessu glæsilega, upprennandi tónlistarfólki sem skemmti á keppniskvöldi. Í öðru sæti var Kolfinna Sjöfn Ómarsdóttir með öruggum flutningi á laginu Runnin‘ eftir Beyonce Knowles, en þeir sem þekkja til þeirrar miklu söngkonu vita að það kemst ekki hver sem er í að syngja lögin hennar. Í þriðja sæti var Hákon Kári Einarsson með fallegan flutning á ljúfsára laginu Slow Dancing in a Burning Room eftir John Mayer, undirspil: Arnar Högni Arnarsson, Hákon Kári Einarsson, Ívar Dagur Bryndísarson Sævarsson. Diskóbandið aðeins meira diskó var svo verðlaunað fyrir áberandi góða sviðsframkomu, Teitur Snær Vignisson aðalsöngvar sýndi ógleymanlega takta þegar hann flutti lagið More than a Woman í viðeigandi Bee Gees falsettu, bakkraddir: Hákon Kári Einarsson, Ólöf Rán Pétursdóttir og Þorbjörg Guðrún Kristófersdóttir, undirspil: Arnar Högni Arnarsson, Hákon Kári Einarsson, Heiðar Óli Jónsson og Ívar Dagur Bryndísarson Sævarsson.

Aðrir keppendur sem fram komu voru:

Hrafntinna Jónsdóttir og Þórkatla Loftsdóttir með lagið The Winner Takes it all með Abba.

Sigurpáll Jónar Sigurðsson með lagið All Along the Watchtower með Bob Dylan.

Emilía Sara Kristjánsdóttir með lagið When I was your Man með Bruno Mars.

Ívar Dagur Bryndísarson Sævarsson með lagið Flugkappi með Stuðmönnum, undirspil: Arnar Högni Arnarson, Hákon Kári Einarsson, Ívar Dagur Bryndísarson Sævarsson.

Linda Clausen með lagið Take me to Church með Hozier.

Þorbjörg Guðrún Kristófersdóttir með lagið When we were Young með Adele, bakraddir: Ólöf Rán Pétursdóttir og Þórey Þula Helgadóttir, Undirspil: Margrét Inga Ágústsdóttir og María Elísa Malmquist Aradóttir.

Svava Margrét Sigmarsdóttir með lagið Before he Cheats með Carrie Underwood

Gunnar Tómasson (Eða bara Jón) með lagið In the Mean Time með Space Hog, undirpil Axel Ýmir Grönli og Daníel Loki Bóasson, Ívar Dagur Bryndísarson Sævarsson.

Skemmtiatriði í hléinu voru í boði væntanlegra útskriftarefna vorið 2023 með dyggri aðstoð Erlu Þorsteinsdóttur, húsfreyju á heimavist ML. Atriðin sem boðið var upp á voru bæði upplífgandi og skemmtileg og sýnilegt að mikil vinna hafði farið í undirbúning þeirra. Lífsgleði og sköpun voru allsráðandi í þessari glæstu keppni og hlakka ML-ingar eflaust allir til að hvetja Óskar Snorra og Kóma til dáða í komandi keppni vorið 2023.  

Hér eru nokkrar myndir frá keppninni og kynningardegi sem var sama dag. En ár hvert er grunnskólum á Suðurlandi boðið til heimsóknar í Menntaskólann að Laugarvatni. Þá fáum við 10. bekkinga alls staðar að af Suðurlandi í heimsókn og fá þeir kynnisferð um skólann og húsakynni hans. Nemendur og kennarar í ML sameinast við að taka á móti gestunum og sýna þeim það helsta í skólastarfi, félagslífi og heimavistardvöl. Í lok heimsóknar er gestum svo boðið á söngkeppnina Blítt og létt.

Að þessu sinni tókum við á móti tæplega 200 nemendum og fylgdarfólki þeirra að auki. ML vill þakka öllum gestum sínum fyrir komuna og ekki síst fyrir samveruna.  

Fleiri myndir eru væntanlegar

Jóna Katrín skólameistari