Nemendur í 2. bekk lögðu af stað í árlega Njáluferð fyrir skömmu í nokkrum dumbungi en hæglætisveðri. Fyrst var komið að Þingskálum austan Ytri-Rangár, þingstað Valgarðar gráa. Staðurinn kemur oft við sögu í Njálu. Þar eignaðist Gunnar t.a.m. sinn versta og ævarandi óvin, Þorgeir Starkaðarson, í hestaati þar sem þorparabrögðum var beitt. Á Þingskálum sjást enn mjög greinilega tóftir af nærri fjörutíu þingbúðum frá Þjóðveldisöld. Á að líta eru þær eins og hverjir aðrir grasi vaxnir hólar, nokkuð ílangir þó og háir. Tóftirnar eru stórmerkilegar, forn húsaþyrping sem landið hefur breitt yfir.
Frá Þingskálum var keyrt að Eystri-Rangá. Þar börðust nemendur með sverðum, spjótum og skjöldum sem Andrés Pálmason hagleiksmaður á Laugarvatni smíðaði sérstaklega fyrir Njáluferðir skólans. Sverðin eru enn ómeðhöndluð en skildina skreyttu nemendur í myndlist og máluðu fyrir ferðina. Þá klæddust nokkrir nemendur nýsaumuðum víkingabúningum sem starfsfólk skólans saumaði og stendur til að sauma mun fleiri og mála sverðin og er hér um að ræða verkefni í góðri vinnslu. Þess má geta að búningarnir eru saumaðir úr gömlum gardínum úr skólanum.
Sögusetrið á Hvolsvelli var heimsótt og síðan lá leiðin í Fljótshlíðina. Á Hlíðarenda fór fram heilmikil keppni í bogfimi. Því háttaði þannig að nemandi úr bekknum hafði fengið afa sinn, Pál á Hjálmstöðum, til að útbúa tvo ágætis boga fyrir ferðina og tilheyrandi örvar. Vegna fyrirhyggju þeirra og hugvits var hægt að keppa í bogfimi til heiðurs Gunnari á Hlíðarenda, þeirri miklu bogaskyttu. Allar líkur benda til þess að bogi Gunnars hafi verið alvöru húnabogi, arfur frá afa hans í Gunnarsholti, en slíkir bogar gátu dregið allt að 300 metra (og á 30 metra færi fór örin í gegnum mjaðmarbein nauts!). Nemendur náðu ekki alveg þeirri örskotslengd en skutu býsna langt samt. Verðlaunin, útskorið víkingahálsmen, gaf Úlfur á veitingastaðnum Valhöll á Hvolsvelli.
Úr Fljótshlíðinni lá leiðin niður í Landeyjar að Bergþórshvoli eins og hefðin gerir ráð fyrir. Keyrt var fram hjá mörgum bæjum og sögustöðum úr Njálu og sagan rifjuð upp á leiðinni með handapati og bendingum. Á heimleiðinni þótti við hæfi að segja nokkrar hrollvekjandi draugasögur og væla í mígrafóninn. Þegar heim var komið hlupu nemendur vígdjarfir beint á kóræfingu.
Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir úr ferðinni og hér eru talsvert fleiri
Elín Una Jónsdóttir íslenskukennari