Nemendur gerðu sér dagamun dagana 15. og 16. mars og brutu upp skólastarfið með fjölbreyttri dagskrá. Boðið var upp á gerð blöðrudýra af bestu gerð, hundaklapp, hrútaþukl og zumba-námskeið. Gummi Emil, samfélagsmiðlastjarna, kom við og hélt námskeið fyrir áhugasama um hvernig er best að bera sig að við lóðalyftingar ásamt því mikilvægasta í næringarmálum. Brjóstsykursgerð, klifur og FIFA mót styttu fólki stundir og heldur þótti nú mikilfenglegt að fá að telfja fjöltefli við stórmeistarann Helga Ólafsson. Helgi gerð sér ferð á Laugarvatn til að taka þátt í Dagamun og nýtti tækifærið til að færa skólanum bók sína um Friðrik Ólafsson að gjöf. Eru honum bestu þakkir færðar fyrir höfðingskapinn.
Sigríður Klingenberg hélt góðan fyrirlestur fyrir alla nemendur skólans og vekur það ætíð lukku að fá Sigríði í hús enda ber hún með sér ljós og gleði hvert sem hún kemur. Kennarar nýttu einnig tækifærið til að efla sig í starfi og fengu góðan fyrirlestur frá Aldísi Örnu hjá Heilsuvernd um streitu og streituviðbrögð enda veitir ekki af í hröðu nútímasamfélagi.
Föstudaginn 17. mars var síðan komið að Dollanum sem er árleg keppni innan alls skólans þar sem nemendahópnum er skipt upp í lið og efnt til góðlátlegrar keppni. Sigurliðið og handhafi Dollabikarsins þetta árið voru Býflugurnar. Að kvöldi dags var svo komið á árshátíð ML en þar skemmta sér saman bæði nemendur og starfsfólk. Árshátíðin hófst á kórsöng frá ML kórnum og svo var gengið inn í fallega skreyttan veislusalinn sem að þessu sinni var í seventies þema. Mikið var um góð skemmtiatriði sem eru að mestu leyti í höndum nemenda en kennarar létu nú ekki sitt eftir liggja og sungu við lag MC Gauta, Klisja, heimatilbúinn texta. Lagið er okkur hér í ML kært þar sem Gauti kom til okkar á haustönninni 2022 og frumflutti lagið fyrir fullum matsal við góðar undirtektir. Árshátíðinni lauk svo með dansleik þar sem Stuðlabandi hélt uppi stuðinu og var gleðin allsráðandi allt kvöldið.
Hér má sjá myndir frá Dagamun og Dolla.
Jóna Katrín