Vikan um miðjan mars einkenndist af eintómri gleði þegar nemendur gerðu sér dagamun. Í tvo daga var hefðbundin kennsla lögð á hilluna og í staðinn sóttu nemendur fjölbreytt námskeið og uppákomur. Hæst bar fyrirlestur sem var vel sóttur um heilbrigði og holla lífshætti. Hrútaþuklið vakti mikla athygli og var þátttaka góð. 3.bekkur rak veitingasölu á Dagamun og gekk það glimrandi vel. Útvarp Benjamín var á sínum stað eins og áður. Umhverfisvænt saumanámskeið vakti mikla lukku þar sem þátttakendur fengu tilsögn við að sauma sína eigin fjölnotapoka úr endurnýttu efni. Og margt fleira brallað.

Á föstudegi var botninn sleginn í þessa óheðfbundnu viku þegar Dollinn fór fram, en Dollinn er æsispennandi keppni þar sem blönduð lið nemenda etja kappi í hinum ýmsu greinum. Keppnin fór vel fram og þátttakendur skemmtu sér ljómandi vel. Þó var þátttakan slakari en fyrri ár þar sem stór hluti nemendahópsins lá í Covid veikindum. Þema liðanna í ár voru drykkir af ýmsu tagi og sigurliðið bar nafnið Monster.