Mánudaginn 29. september fóru kennarar í umhverfis- og vistfræði með fyrsta árs nema til Þingvalla. Markmið ferðarinnar var að kynna okkar þjóðgarðinn, sjá urriðann í Öxará og skoða þá þjónustu sem þar er boðið upp á og þær áskoranir sem þarf að takast á við.

Veðrið var því miður ekki upp á marga fiska, grenjandi rigning, rok og þoka sem faldi fjallasýnina. Haustlitir birkisins voru foknir í fyrsta stormi haustsins en lággróðurinn var í haustlitunum og því afar fallegt um að litast.

Afar ánægjulegt var að sjálfur Guðni Th. Jóhannesson fyrrum forseti tók á móti hópnum og fór yfir sögu Þingvalla sem hann gerði af sinni alkunnu snilld. Torfi Stefán Jónsson fræðslufulltrúi  á Þingvöllum var með Guðna og sagði okkur meira frá sögunni, náttúrunni og ferðamanninum. Við gengum að Peningagjá eða Flosagjá eins og hún hét áður. Þaðan var farið yfir Öxará þar sem við sáum marga stóra urriða. Frá Öxará var gengið í Almannagjá að Drekkingarhyl þar sem Torfi fór vel yfir refsingar og fullnustu þeirra á árum áður og í lokin gengum við upp á Hakið þar sem við stoppuðum ekkert því í lok ferðar bætti enn meira í rigninguna. Í gestastofunni fengum við fyrirlestur um þjóðgarðinn, vatnasvið Þingvallavatns og innviðauppbyggingu til að vernda staðinn fyrir álagi vegna sívaxandi fjölda ferðamanna og í lokinn gafst góður tími til að skoða sýninguna.

Ferðin tókst í alla staði mjög vel og þökkum við Guðna og Torfa kærlega fyrir leiðsögnina og Pálma fyrir rútuaksturinn. Það fer ekki á milli mála að Íslensk náttúra er auðlind sem okkur ber að fara vel með.

Jóna Björk og Margrét Elín kennarar áfanga.