Hefð er fyrir því í Menntaskólanum að Laugarvatni að allir nemendur skólans fari ásamt starfsfólki í fjallgöngu að hausti. Þann 3. september 2024 lögðum við í hann upp eftir Gjábakkavegi að Langamel, skógræktarsvæði í hlíðum Laugarvatnsfjalls. Veðrið lék við okkur þennan dag og gangan reyndist létt og skemmtileg enda allir vel skóaðir og með góða vatnsbrúsa. Fjallgangan þetta árið var í samvinnu við Umhverfisnefnd ML og tækifærið nýtt til að sinna landvernd og gróðursetja birkiplöntur. Samantekt á landgræðsluverkefninu má svo líta hér í framhaldi.
Verkefni: Gróðursetning birkiplantna á Langamel.
Skipuleggjendur: Umhverfisnefnd ML í samvinnu við Land og skóg.
Markmið verkefnisins er að skóga svæðið og gera nemendur meðvitaða um mikilvægi trjáa og gróðurs í náttúrunni.
Markmið grænfánaverkefnis : Náttúruvernd og vistheimt.
Undirbúningur fyrir verkefnið hefur verið í gangi í langan tíma. Síðasta gróðursetning trjáa og grasfræja á vegum Umhverfisnefndar ML fór fram vorið 2022. Við ætluðum að halda verkefninu áfram vorið 2023 en að höfðu samráði við Land og skóg komumst við að þeirri niðurstöðu að besti tíminn til að gróðursetja trjáplöntur væri síðsumars þegar nemendur hefja nýtt skólaár.
Plöntur og gróðursetningartæki voru styrkt af Landi og skógi. Dagur til fjallgöngu og gróðursetningar var valinn í samvinnu við skólastjórnendur og eftir mikla rannsóknarvinnu á vedur.is. Menntaskólinn að Laugarvatni er hluti af grænfánaverkefni Landverndar og var fulltrúum þeirra boðið að mæta á staðinn og taka þátt í viðburðinum.
Fulltrúar frá Landi og skógi voru Garðar Þorfinnsson og Ægir Freyr Hallgrímsson og voru þeir okkur til halds og trausts og sýndu viðstöddum hvernig ber að gróðursetja plönturnar og tóku svo nemendur og aðrir viðstaddir til hendinni. Almennt nutu nemendur sín í góða veðrinu og tíndu ber ásamt því að alls voru gróðursettar 2.479 birkiplöntur. Að lokinni gróðursetningu fóru nemendur í hópast í skólann og vorum við ásamt starfsmönnum Land og skógar sammála um að gott væri að hrinda í framkvæmd öðrum áfanga þessa verkefnis með vorinu. Munum við þá útvega áburð fyrir gróðursett tré.
Markmið verkefnisins náðist, það var frábært að allt skólasamfélagið gat tekið þátt í því og veðrið var gott. Þetta var gott tækifæri til að vekja ungt fólk til vitundar um mikilvægi skógræktar og til að efla virðingu fyrir náttúrunni.
Fyrir hönd umhverfisnefndar ML vil ég þakka starfsmönnum Lands og skógar fyrir að skipuleggja plöntuafhendingu og fyrir aðstoð við gróðursetningu, fulltrúum Landverndar fyrir komuna og skólastjórnendum fyrir aðstoð við skipulagningu þessa dags.
Hér má sjá nokkrar myndir.
Kamil Lewandowski formaður umhverfisnefndar ML