Sú ágæta hefð komst á hér við Menntaskólann að Laugarvatni, að fara með nemendur í svokallaða forvarnarferð. Fyrstu skiptin var farið með nýnema í Hólaskóg, sem er skáli skammt innan við Búrfell í Þjórsárdal. Þangað voru fengnir fyrirlesarar, þar var svo kvöldvaka og gist meira að segja. Þessar ferðir tókust allar vel og þóttu afar gott hópefli á sínum tíma. En tímarnir breytast og tilhögun þessa var breytt. Hætt að gista, en þess í stað gerð ein góð ferð í bæinn.
Haft er í huga að gera sem mest úr hópeflinu og þjappa hópnum enn betur saman. Nú var þetta gert með þeim hætti að farið var upp úr hádeginu fimmtudaginn 07. sept. Og ekið til Reykjavíkur. María Carmen Magnúsdóttir forvarnarfulltrúi hafði skipulagt daginn í þaula, en gat því miður ekki verið með okkur svo Erla húsfreyja kom í hennar stað. Pálmi ók rútunni eins og stundum áður og við keyrðum beina leið til Dale Carnegie þar sem Magnús Stefánsson tók á móti hópnum. Til að byrja með voru þau öll látin skilja símana sína eftir frammi og líklega var það erfitt fyrir einhverja. Síðan hlýddu þau á fyrirlestur hjá Magnúsi og gerðu með honum hópeflisverkefni af ýmsu tagi.
Að því loknu var farið með allan hópinn í GG Sjósport, en þar var mikil útsala sem mögulega einhverjir vildu nýta sér, en framundan eru ferðir með útivistina. Einhverjir gerðu góð kaup svo það borgaði sig að líta aðeins inn þarna. Þaðan var svo farið beint í Egilshöll þar sem biðu okkar 10 brautir í keilu og á þær fengum við svo pitsur eins og allir gátu torgað. Mikil keppni um efstu sæti og góð stemming er óhætt að segja. Svona ferðir eru afar góðar til að hrista nýnemahópinn saman og það tókst vel í þessari ferð. Við vorum svo komin aftur á Laugarvatn um kl. 20.30 eftir vel heppnaða Reykjavíkurferð.
Pálmi og Erla.