Mánudaginn 10. mars fengum við hér ML heimsókn frá franska menntaskólanum Lycée Odilon Redon í Pauillac, skammt frá Bordeaux. Hópurinn kallaði sig ,,Eco-délégués“ og var sérlega áhugasamur um umhverfismál, jarðfræði – og jarðvarma. Hann samanstóð af 19 nemendum og 3 kennurum. Nemendur úr 2. bekkjar í frönsku höfðu áður haft samskipti við frönsku gestina í gegnum samfélagsmiðla og var því spennandi að hittast loks í eigin persónu

Dagurinn hófst á kynningu á ML og íslenska skólakerfinu. Frönsku nemendurnir fóru í stuttan skoðunartúr um skólann, heimsóttu kennslustofur og tóku jafnvel þátt í kennslustundum.

Kamil, formaður umhverfisnefndar, og Hallgrímur nemandi kynntu gestunum hin ýmsu umhverfisverkefni skólans. Gestirnir fengu einnig einstakt tækifæri til að smakka á hinu víðfræga hverarúgbrauði. Pálmi og Erla grófu upp brauð og fræddu gestina um hvernig Laugvetningar hafa nýtt jarðhitann í gegnum árin. Dagurinn endaði svo á notalegri samveru í baði og gufu í Fontana.

Þriðjudaginn 11. mars var komið að spennandi Suðurstrandarferð og jöklagöngu með frönsku gestunum. Alls lögðu 23 Frakkar og 20 ML-ingar af stað eldsnemma morguns í blíðskaparveðri, með frönskukennara ML, leiðsögumanni og bílstjóra. Flestir voru vel búnir fyrir útivistina með nesti frá Svenna kokki í farteskinu.

Við Sólheimajökul fengu allir göngubrodda, hjálma og belti og lögðu svo af stað í ógleymanlega jöklagöngu. Verðrið lék við okkur og fegurðin einstök. Eftir gönguna var komið við í Reynisfjöru og að Seljalandsfossi, náttúrperlum sem skörtuðu sýnu fegursta. Veðurguðirnir voru okkur sannarlega hliðhollir þennan dag.

Að kvöldi þriðjudagsins var komið að kveðjustund. ML-ingar undirbjuggu sig fyrir Dagamun og Frakkarnir fyrir Gullna hringinn.

Heimsóknin var frábærlega vel heppnuð og hver veit nema að þessi tveir dagar hafi lagt grunninn að varanlegum tengslum milli skólanna tveggja og landanna okkar.

Gríma Guðmundsdóttir frönskukennari

Myndir frá heimsókinni