Vortónleikar kórs Menntaskólans að Laugarvatni voru haldnir föstudaginn 28. apríl í Guðríðarkirkju. Tvennir vel heppnaðir tónleikar voru haldnir fyrir fullri kirkju og var stemningin virkilega létt og góð. Eyrún kórstjóri stýrði kórnum af einskærri snilld og var ákveðið að hafa klæðaburðinn aðeins frjálslegri á þessum tónleikum eftir mjög strangar reglur á tónleikunum á Ítalíu. Dagskráin var fjölbreytt að vanda, hátíðleg dagskrá með fallegum íslenskum lögum, má þar nefna Til fánans, Hættu að gráta hringaná, Land míns föður og Ólýsanleg. Síðan voru tekin nýlegri og poppaðri lög eins og Joga eftir Björk, Somebody to love eftir Queen og Lifi ljósið úr söngleiknum Hárið. Vortónleikar marka alltaf þáttaskil í sögu kórsins þar sem þetta er lokaverkefni hans og 3. bekkingar kveðja og halda á vit nýrra ævintýra. Því mátti aðeins sjá nokkur tárvot augu því erfitt er að kveðja eftir skemmtileg og lærdómsrík ár.

Viljum við þakka öllum þeim sem hafa mætt á tónleika kórsins þetta skólaárið fyrir stuðninginn og hvatninguna.

Kær sumarkveðja

Margrét Elín Ólafsdóttir

Verkefnastjóri kórsins