Glaðbeittur hópur kennara og starfsfólks Versló sótti  Menntaskólann að Laugarvatni heim undir styrkri forystu Guðrúnar Ingu Sívertsen, skólastjóra Verslunarskólans.

Gestirnir fengu kynningu á starfsemi skóla og heimavistar ML í fyrirlestrarsal en skólameistari Jóna Katrín Hilmarsdóttir fór stuttlega yfir sögu Menntaskólans og starfsemi hans. Að því loknu fékk hópurinn leiðsögn um skólann sem endaði í matsalnum á köku og kaffi. 

Gestirnir komu færandi hendi og færðu skólanum eintak af sögubók skólans; Vor unga stétt – Verslunarskóli Íslands í 100 ár og fá bestu þakkir fyrir fallega gjöf og gott lesefni inn í sumarið.

Móttökunefnd Menntaskólans skipuðu Jóna Katrín, Gríma Guðmundsdóttir, Erla Þorsteinsdóttir og Hildur Hálfdanardóttir.

Við sendum kollegum okkar í Versló hjartans þakkir fyrir frábæra heimsókn og fögnum því að geta tekið á móti gestum eftir ansi langt Covid-hlé á heimsóknum.