Á dögunum fóru nemendur valáfangans Heilbrigðis- og næringarfræði, matreiðsla í áhugaverða og skemmtilega ferð á tvo vinsæla staði í nágrenninu. Matreiðsluhættir, aðbúnaður, framleiðsla og saga staðanna voru kynnt fyrir hópnum.
Við byrjuðum í Efstadal, gamla fjósinu sem nú er veitingastaður. Þar hittum við fyrir Ísak framkvæmdastjóra sem sagði okkur frá framleiðslunni, ræddi um næringarinnihald varanna og fræddi nemendur um staðinn á milli þess sem nemendur smökkuðu ost, skyr og mysu. Misjafnt var hversu grettnir nemendur voru eftir smakkið. Hópnum leist mun betur á það þegar farið var niður í ísbúð í smakk. Ísinn rann ljúflega niður á meðan var spjallað og fylgst með kúnum sem eru nánast inni á staðnum, aðeins gler sem aðskilur.
Staðurinn er rekinn af systkinum og fjölskyldum þeirra sem tóku við rekstrinum af foreldrum. Nú er þar ísbúð, veitingastaður, gisting og hestaleiga. Mikil áhersla er lögð á að nýta vörur beint frá býli og nærumhverfi. Ánægjulegt var að sjá hversu vel staðurinn var sóttur í hádegi í miðri viku.
Næst var förinni heitið á Geysi þar sem Bjarki yfirkokkur tók á móti okkur. Hann byrjaði á að sýna okkur glæsilegu herbergi hótelsins, geymslur, starfsmannaherbergi, matsali, eldhús og fleiri ranghala byggingarinnar. Virkilega stór og mikilfengleg bygging þar sem hugsað er fyrir öllu. Ánægjulegt finnst okkur að sjá hversu margt er bakað og eldað frá grunni og matvæli keypt af bændum í nærumhverfinu. Að lokum fengum við forréttahlaðborð sem var ekki af verri endanum. Sem dæmi var reyktur lax, djúpsteiktir humarhalar, rauðrófu- og nautacarpaccio. Virkilega ljúffengt og rann maturinn ljúflega niður með gosinu sem var í boði.
Við þökkum Efstadal og Hótel Geysi fyrir frábærar móttökur.
Hér má sjá myndir úr ferðinni.





Kv.
Margrét

