Það voru mikil vonbrigði þegar Parísarferð féll niður vegna óviðráðanlegra orsaka í byrjun október. Allt kapp var lagt í að bóka nýja ferð, nýtt flug, breyta alls konar bókunum í París og það tókst. Hópurinn komst út í lok nóvember, stærsti hópurinn til þessa, 24 nemendur.

Ferðin er hluti af svokölluðum Parísaráfanga sem er í boði fyrir frönskunemendur á þriðja ári. Í áfanganum fræðast nemendur um borgina, vinna ýmis verkefni og undirbúa sig sem best fyrir menningarferðina.

Sunnudaginn 23. nóvember síðastliðinn kom svo að fyrirheitnu ferðinni, nemendur ásamt Hildi ritara og Grímu frönskukennara héldu til borgar ljósanna og dvöldu þar í 4 nætur.

Heimsborgin tók á móti hópnum með nóvember veðri, gráma og nokkrum dropum en það sló ekkert á eftirvæntinguna og spenninginn hjá nemendum. Á  Charles de Gaulle flugvellinum beið okkar rúta og virkilega hress bílstjóri, hann Karim, keyrði okkur beinustu leið á farfuglaheimilið okkar Generator í 10. hverfi.

Eftir dálitla hvíld beið hópurinn ekki boðanna og setti stefnuna á Frúarkikjuna, Notre-Dame.  Við vorum svo heppin að koma beint inn í messu, ótrúlega falleg og hátíðleg stund. Kirkjan jafnvel enn fegurri en áður eftir endurbæturnar í kjölfar brunans árið 2019. Rölt var um Latínuhverfið og áður en haldið var heim dansaði svo allur hópurinn með götulistamanni á torginu fyrir framan Notre-Dame. Virkilega skemmtilegt fyrsta kvöld með útsýni að glitrandi Eiffelturninum frá fallegu Pont Neuf brúnni yfir Signu.

Á öðrum degi heimsóttum við eitt stærsta og þekktasta safn veraldar, Louvre, undir leiðsögn Parísardömunnar, Kristínar Jónsdóttur og skoðuðum þar mörg helstu meistaraverkin. Jólamarkaðurinn í Tuileries görðunum var skemmtilegur og fóru nemendur í margs konar tæki sem þeirri elstu í hópnum fannst heldur hræðileg.

Á þriðja degi lá leiðin til Versala, enn í fylgd Parísardömunnar, til að skoða eina glæsilegustu höll Evrópu með mikilfenglegum speglasal og fallegum hallargörðum. Það var heldur napurt í görðunum en við bættum úr því með því að kaupa okkur heitt kakó og náðum að kíkja á fallega sveitaþorpið hennar Maríu Antoinette

Næst á dagskrá var kvöldsigling á Signu sem sendur alltaf fyrir sínu, minnismerki og byggingar svo fallega upplýst. Deginum lauk svo á einni þekktustu breiðgötu heims sem nú er fagurlega skreytt í tilefni jólanna. Ótrúlega gaman að ganga niður breiðgötuna frá Sigurboganum og upplifa jólaljósin á Les Champs-Élysées. Aldeilis pakkaður dagur!

Á fjórða degi beið Eiffel-turninn okkar. Útsýni af toppnum frábært í björtu og fögru veðri.

Við kíktum á vöruhúsið Galeries Lafayette með sínum glæsilegu jólaskreytingum þar næst var það Bastillan og fallega Place de Vosges torgið í Mýrinni.  Miðjan daginn nýttu nemendur til að kíkja í búðir og versla dálítið í áðurnefndu vöruhúsi, í búðunum á Rue de Rivoli eða í stóru  verslunarmiðstöðinni Les Halles. Neðanjarðarlestirnar (métro) voru óspart nýttar og eru þægilegur ferðamáti til að komast hratt og örugglega á milli staða.  

Um kvöldið lá leiðin á Montmartre hæðina og nemendur töldu þrepin upp tröppurnar að Sacré-Coeur kirkjunni. Þau voru víst æði mörg.  Síðasta kvöldmáltíðin var á veitingastaðnum  La Bonne Franquette rétt hjá á Á Place du Tertre – málaratorginu. En nú voru málararnir ekki nema tveir eða þrír og torgið hálfmannlaust. Gaman að koma þarna á svona rólegum tíma. Það var stjanað við hópinn á veitingastaðnum og nemendur prófuðu ýmsa franska rétti og margir fengu sér snigla í fyrsta sinn. Við Hildur höfðum orð á því hvað allir væru almennilegir alls staðar. Það er gott að ferðast svona utan háannatíma, það þarf bara að muna að klæða sig vel og eftir veðri. Að lokinni velheppnaðri máltíð röltum við um hverfið og kíktum á Café deux Moulins, sögusvið Amélie Poulain kvikmyndarinnar og svo auðvitað á  Rauðu mylluna. Þá var komið að lokum og farið í métro í síðasta sinn.

Daginn eftir keyrði Karim okkur á flugvöllinn með viðkomu í bakarí á hans heimaslóðum í úthverfi Parísar. Einstaklega kumpánlegur náungi og í bakarínu fundum við enn og aftur fyrir vinalegu miðmóti fólks. Nokkrir viðskiptavinanna könnuðust við Ísland, eldgosin, kuldann, náttúrufegurðina, fótboltann og létu sig dreyma um að koma til Íslands. Þetta var skemmtileg kveðjustund.

Nemendur æfðu sig í frönsku og kynntust heillandi borg. Óhætt er að segja að ferðin hafi verið öllum lærdómsrík og skemmtileg. Erfitt var á köflum þegar kuldinn beit en við gleymdum því fljótt og svo lærðu nemendur að nota regnhlíf. Þegar heim var komið heim klipptu nemendur saman myndbönd úr ferðinni og kynntu á námsmatstíma nú í desember

Það er virkilega gaman og gefandi að fara með nemendum í svona ferð. Ég þakka hópnum í ár, nemendum og Hildi fyrir skemmtilega samveru!

Fleiri myndir birtast í myndasafni ML https://flic.kr/s/aHBqjCE3x5

Gríma Guðmundsdóttir, frönskukennari.