Eftir viðburðaríkar vikur kórsins var loksins komið að lokaverkefni hans, sjálfum jólatónleikunum. Haldnir voru tvennir tónleikar, 21. og 22. nóvember, fyrir fullri kirkju af fólki í Skálholtsdómkirkju. Virkilega hátíðleg stund, létt og afslappað andrúmsloft sem smitaði vonandi áheyrendur í aðdraganda aðventunnar. Hljómburður kirkjunnar er einstakur og færði tónleikagestum magnaða upplifun af íðilfögrum röddum í bland við undirleik kórstjóra á Steinway-flyglinum og hljóðfæraleik menntskælinga.
Í byrjun tónleika spilaði Ómar Azfar Valgerðarson Chattha á Selló. Aðrir hljóðfæraleikarar úr röðum kórmeðlima voru Viktor Örn Ólafsson á bassa, Óskar Ingi Eyþórsson á gítar og Bergrún Ágústsdóttir á þverflautu.
Dagskráin innihélt fjölbreytt jólalög á við Með bæninni kemur ljósið, Frostið, Yfir fannhvíta jörð og Dansaðu vindur. Skemmtilegt var þegar kórmeðlimir gengu um kirkju og sungu saman Jólasveinar ganga um gólf. Tenór og bassi fóru síðan aftur á sinn stað og sungu klassíska lagið Ef ég nenni af öryggi. Raddirnar Alt og Sópran voru enn meðal áheyrenda og sungu af innlifun lagið Himinganga. Í jólasyrpu sungu kórmeðlimir einsöng og var gaman að heyra sungið á fleiri tungumálum því einnig var sungið á finnsku og norsku. Einsöngvarar kórsins voru Amelía Íris Unnarsdóttir, Anna Regína Sch. Viðarsdóttir, Arnór Karlsson, Hjördís Katla Jónasdóttir, Íris Birna Árnadóttir, Kamilla Sól Valdimarsdóttir Nokkala, Sara Nadía Gunnarsdóttir, Sigurður Emil Pálsson, Stefanía Maren Jóhannsdóttir, Vésteinn Loftsson og Þórey Kristín Rúnarsdóttir. Meðlimir kórsins sáu einnig um lagakynningar.
Kórstjórn sér alfarið um miðasölu tónleika og stóð sig afar vel við allan undirbúning og skipulag. Í kórstjórn sitja Þórey Kristín Rúnarsdóttir formaður, Emil Rafn Kristófersson gjaldkeri, Amelía Íris Unnarsdóttir ritari, Sara Mist Sigurðardóttir og Ómar Azfar Valgerðarson Chattha meðstjórnendur.
Þess má geta að kórinn hefur ekki starfað síðan á haustönn 2024 og þá voru tónleikar hans óhefðbundnir og haldnir með Sinfóníuhljómsveit Suðurlands, mögnuð upplifun en þar voru kórmeðlimir ekki aðalatriðið. Í haust tók Stefán Þorleifsson við kórnum úr góðu búi Eyrúnar Jónasdóttur. Þó má segja að enn fleiri óreyndir hafi verið í kórnum en vanalega og áskorun að taka við ungmennakór sem er auk þess einn sá stærsti á landinu með 116 meðlimum. Stefán á mikinn heiður skilinn fyrir sín störf og verður gaman að fylgjast áfram með kórnum. Enn eru meðlimir að kynnast vinnubrögðum hans og eigum við einungis eftir að sjá kórinn eflast.
Undirrituð mælir með að kóraðdáendur sem og aðrir áhugasamir fylgist með verkefnum kórsins hér: Kór ML | Facebook
Kórinn heldur til Stokkhólms eftir páska og verða haldnir tónleikar fyrir ferðina. Fjáröflun er á fullu og voru jólatónleikar liður í fjáröflun hennar. Færum við okkar bestu þakkir fyrir stuðningum á miðakaupum og söluvarningi. Enn er hágæða eldiviður til sölu hjá kórfélögum.
Hér að neðan má sjá niokkrar myndir frá tónleikum.
Jólakveðja, Margrét Elín verkefnastjóri kórs ML









