Enn og aftur slær kórinn okkar í gegn á mögnuðum jólatónleikum í Skálholtskirkju í samvinnu við þrjá aðra kóra undir stjórn Eyrúnar Jónasdóttur en auk hennar stjórnar Kristinn Ingi Guðnason barnakórnum. Þeir sem komu fram með kórnum voru Vörðukórinn, Kirkjukór Kálfholtskirkju og Barnakór Grunnskólans á Hellu. Það má með sanni segja að öll sæti sem og önnur svæði kirkjunnar hafi verið fullnýtt á þessum glæsilegu tónleikum.

ML – kórinn byrjaði tónleikana á fallega laginu Evening Rise sem undirrituð getur vottað að sé ein sú flottasta byrjun á tónleikum sem um getur. Hver kór flutti þrjú lög og í lokin sungu allir kórarnir saman lögin Það snjóar og Fögur er foldin, stórkostleg upplifun að sjá og heyra. Í kórunum eru fjölskyldutengsl sem gerir þetta að skemmtilegri samverustund sem er kærkomin á aðventunni. Það var yndislegt að sjá barnakórinn stíga sín fyrstu spor í söngheiminum og mikil gleði skein úr hverju andliti. Gaman var að sjá hversu mikið þau litu upp til unglinganna okkar, og eins hve unglingarnir litu upp til þeirra eldri.

Það er Eyrún Jónasdóttir sem á mikinn heiður skilinn fyrir skipulagningu tónleikanna og starf sitt sem kórstjóri. Það er ekki á allra færi að halda tónleika sem þessa. Í lok tónleika héldu Óskar Snorri Óskarsson formaður nemendafélagsins og Jóna Katrín Hilmarsdóttir skólameistari þakkarræður til Eyrúnar og voru henni færðar gjafir fyrir sitt gjöfula og óeigingjarna starf. Eins færum við gestkomandi kórum miklar þakkir fyrir að mæta í Skálholtskirkju og syngja þar sem þessir tónleikar voru einn liður í fjáröflun kórsins fyrir Ítalíuferð í vor og rennur allur ágóði miðasölunnar upp í ferðina.

Hér má sjá nokkrar myndir frá þessum magnaða viðburði.

Jólakveðja

Margrét Elín Ólafsdóttir

Verkefnastjóri kórsins