Kórinn fer ávallt að hausti í Aratungu til æfinga og með því markmiði að þjappa hópnum betur saman. Í ár er kórstarfið þó aðeins frábrugðið venjulegu starfsári og því var einungis hist á föstudegi og ekki haldnir tónleikar í lok æfingabúða á laugardegi eins og vaninn er.

4. október sl. var haldið af stað strax eftir skólalok í Aratungu. Sá dagur innihélt æfingar, mat, söng, skemmtiatriði og leiki. Hver rödd æfði atriði og flutti af einstakri snilld, Eyrún kórstjóri valdi besta atriðið. Keppnisskapið var gífurlegt og vildi auðvitað hver og ein rödd vinna. Í annað sinn í röð vann sópran og voru fagnaðarlætin gríðarleg. Það má með sanni segja að við sem eldri erum hafi fylgst með þessum einstaka og skemmtilega hópi skemmta sér fallega saman og eiga frábæran dag.  

Það sem er frábrugðið þetta árið hjá kórnum er að honum bauðst til að halda tónleika með Sinfóníuhljómsveit Suðurlands undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar. Þetta er einstakt tækifæri sem kórnum hlotnaðist og mikill heiður að fá að taka þátt. Næsta verkefni kórsins eru því tónleikar 30. nóvember í Skálholtskirkju ásamt Sinfóníusveit Suðurlands. Nánari upplýsingar berast síðar um viðburðinn.

Þess má geta að þetta árið eru 52 nýnemar sem er nánast helmingur kórsins. í heildina telur kórinn 114 meðlimi. Því má með sanni segja að Eyrún Jónasdóttir á ærið verkefni fyrir höndum og heiður skilið fyrir allt sitt starf og metnað sem hún leggur í kórstarfið.

Myndir frá æfingabúðum og tónleikum má sjá hér.

Margrét Elín Ólafsdóttir

Verkefnastjóri kórs Menntaskólans að Laugarvatni