Kynningardagur Menntaskólans að Laugarvatni var haldinn fimmtudaginn 26. október síðastliðinn. Á kynningardeginum er gunnskólanemendum boðið að heimsækja Menntaskólann og kynna sér starfsemi hans. Í þetta skiptið komu um 200 nemendur frá 11 grunnskólum á Suðurlandi auk fylgdarliðs.
Heimsóknin hófst með skipulagðri skoðunarferð um skólann og heimavistir undir stjórn menntskælinga og kennara ML. Gestirnir fengu kynningu á náminu í ML, félagslífinu og ýmsum aðbúnaði. Valáfangar eins kór og útivist vöktu sérstaka athygli og gestum var boðið upp á gómsætt smakk af nemum í heilbrigðis– og matreiðsluáfanga. Efnafræðitilraunin var líka spennandi. Að lokinni vel heppnaðri skoðunarferð var gestum boðið upp á kvöldverð og rúsínan í pylsuendanum var auðvitað söngkeppni Menntaskólans, Blítt og létt.
Gunnar Tómasson bar sigur úr býtum fyrir flutning á laginu I want to live með Spacehog. Frábær flutningur hjá Gunnari og félögum. Í öðru sæti var Kolfinna Sjöfn Ómarsdóttir með lagið If I ain’t got you með Aliciea Keys og í þriðja sæti var Daníel Aron Bjarndal með frumsamda lagið, Sumarást. Ragnar Dagur Hjaltason og félagar fengu svo viðurkenningu fyrir skemmtilegustu sviðsframkomuna fyrir flutning á laginu Björgúlfur bréfberi eftir Ladda. Dagskrá kynningardagsins lauk rétt fyrir kl. 21 og grunnskólanemendur héldu heim á leið eftir viðburðaríkan dag.
ML- dagurinn er orðinn stórviðburður í skólalífi Menntaskólans að Laugarvatni þar sem allir leggja hönd hönd á plóg bæði nemendur og starfsfólk. Við þökkum grunnskólanemum fyrir ánægjulegan dag og vonum að þeir hafi haft bæði gagn og gaman af.
Hér má sjá fjölda mynda frá degi og kvöldi.
Gríma náms- og starfsráðgjafi