Á dögunum fóru nemendur valáfanganna Heilbrigðis- og næringarfræða, matreiðsla og Upplifðu Suðurland í skemmtilega og lærdómsríka vettvangsferð í nærumhverfi okkar hér í Uppsveitunum. Nemendur matreiðslunnar byrjuðu á því að matreiða rúgbrauð sem bakað hafði verið við aðalhverinn hér á Laugarvatni og byrjaði ferðin því þar klukkan 13:00 í dásamlegu veðri. Brauðið sem var bakað í sólarhring í sandinum við hverinn heppnaðist afar vel og smakkaðist ágætlega með dágóðu magni af smjöri. Eftir það var haldið af stað í Efstadal þar sem við fengum kynningu á matvörum, sögu staðarins og gæddum okkur á skyri, osti og mysu. Það var misjafnt hversu ánægðir nemendurnir voru með þessar þjóðlegu kræsingar. Næst var ferðinni heitið í Friðheima þar sem okkur var sagt frá framleiðslunni og hvernig tómataræktunin byrjaði. Eins var áhugavert að sjá vinnuþjarkana sem hafa stóru hlutverki að gegna varðandi blómgun tómatplantnanna. En þetta eru innfluttar kvenbýflugur frá Hollandi. Eftir skemmtilega kynningu fengum við að smakka tómatana, tómatsúpu og brauð. Að lokum keyrðum við á Flúðir og heimsóttum Farmer´s Bistro. Þar fengum við að bragða á sveppasúpu auk þess sem að við fengum kynningu á því sem var í boði. Allt saman virkilega gott. Því má segja að þessi ferð hafi verið afar vel heppnuð, við vorum heppin með veður og nemendur voru kurteisir og áhugasamir í alla staði. Lögðum við því af stað aftur til Laugarvatns södd og sæl eftir skemmtilega tilbreytingu. Hér eru myndir ferðalanganna.

Margrét, Jón og Stephanie