Það hefur verið fastur liður hjá ML að fara í Njáluferð þegar líður á haustið og skelltu nemendur annars bekkjar í eina slíka þriðjudaginn 28. Október.
Lagt var af stað frá ML klukkan 8:30 og var förinni heitið á Hellu. Þar sóttum við Lárus Á. Bragason, sögukennara í FSu, en hann var leiðsögumaðurinn okkar um Njáluslóðir. Veðurskilyrði voru ekki góð þennan daginn og talsvert var um snjó og slæmt útsýni á köflum en við létum það ekki á okkur fá.
Fyrsti áfangastaður var Gunnarssteinn þar sem þeir bræður Gunnar, Kolskeggur og Grímur börðust hetjulega við óvini sína sem sátu um fyrir þeim. Nemendur settu á svið bardaga við Gunnarsstein en þau höfðu meðferðis búninga, sverð og skildi. Þarna hófust gríðarleg átök á milli N og F bekkjar þar sem F bekkur bar sigur úr bítum.
Að bardaga loknum fórum við í Valhöll þar sem við fengum dýrindis hamborgara og skoðuðum Njálusafnið í leiðinni. Þegar allir voru orðnir saddir og sælir fóru við að Hlíðarenda og krökkunum fannst hlíðin alveg hreint ægifögur. Planið var að fara niður að Bergþórshvoli og skoða heimkynni Njáls og Bergþóru en þar sem veðrið var ekki með okkur í liði ákváðum við að sleppa því í þetta sinn.
Við skiluðum svo Lárusi aftur á Hellu en hann uppskar mikið lófatak fyrir að hafa aðstoðað okkur með leiðsögn. Að lokum fórum við aftur heim á Laugarvatn eftir vel heppnaða Njáluferð. Ég vil þakka nemendum 2. bekkjar, Pálma og Lárusi fyrir ánægjulegan dag.
Elva Rún Pétursdóttir, íslenskukennari






