Á dögunum fóru nemendur valáfangans Heilbrigðis- og næringarfræði, matreiðsla í áhugaverða og skemmtilega ferð á vinsæla staði í nágrenninu. Matreiðsluhættir, framleiðsla og saga staðanna voru kynntir fyrir hópnum sem hlustaði af áhuga. Við byrjuðum á Sólheimum þar sem við fengum fræðslu um starfsemina frá Önnu Þuríði Pálsdóttir forstöðukonu Sesseljuhúss og kíktum síðan í gróðurhúsið. Sjálfbæra samfélagið á Sólheimum hefur starfað í 93 ár, stofnað af Sesselju Hreindísi Sigmundsdóttur. Sagan af því þegar Sesselja tók að sér fötluð börn snerti okkur mjög. Hvetjum við öll til að heimsækja Sólheima, það verður enginn svikinn af því.
Næst var förinni heitið á veitingastað Geysis. Þar fengum við höfðinglegar móttökur frá kokkunum Bjarka Hilmarssyni og Birni S. Haukssyni. Sagði Bjarki okkur frá sögu staðarins og fengum við síðan dýrindis kræsingar! Reyktur lax, rúgbrauð, nautacarpaccio, hreindýrapate, rauðrófucarpaccio og gosdrykkir. Eftir dásemdarsmakk fengum við leiðsögn í gegnum eldhúsið sem má örugglega segja að sé með þeim flottari. Kokkarnir fóru með okkur um ranghala byggingarinnar, sýndu okkur kæla, geymslur, hótelið og einkarými fyrir hópa. Bjarki og Birnir eru virkilega áhugasamir um matreiðslu og heyrðist það á lýsingum þeirra á staðnum og því sem þeir gera þar. Ekkert nema ánægja og gleði sem þeir fá út úr því að matreiða og hver veit nema þeir hafi náð að smita einhverja úr hópnum af kokkabakteríunni.
Að lokum var haldið af stað í Efstadal II þar sem við fengum áhugaverða kynningu frá Kristínu Ingunni Haraldsdóttur á fallega veitingastaðnum. Staðurinn er rekinn af fjórum systkinum og fjölskyldum þeirra sem tóku við rekstrinum af foreldrum. Fengum við smakk af osti, skyri og mysu. Misjafnt var hversu ánægður hópurinn var með mysuna, en osturinn og skyrið var ljúffengt. Enduðu síðan flestir á því að fá sér bragðgóða ísinn sem þar er framleiddur á meðan við fylgdumst með kúnum.
Eftir skemmtilega ferð var okkur mörgum efst í huga hugrekki. Það að byrja rekstur getur reynt á og verið mikil óvissa í byrjun. Við erum virkilega þakklát öllum þeim sem tóku á móti okkur.
Hér má sjá myndir úr ferðinni.
Margrét Elín Ólafsdóttir kennari áfangans