Bogi Hallgrímsson, þjálfari frá Kvan, sá um lífsleiknitímann hjá öðrum bekk föstudaginn 24. febrúar. Umfjöllunarefnið var sjálfstraust og samskipti. Hvað er sjálfstraust og hvers vegna er það misjafnt eftir aðstæðum? Hvernig getum við stækkað þægindasvæðið okkar með því að hoppa út á “teygjusvæðið” oft og reglulega. Hvað þykir þeim erfitt og jafnvel ómögulegt að gera? Allt nám á sér stað út á teygjusvæðinu svo við þurfum að vera óhrædd við að hoppa út í laugina og út fyrir þægindarammann okkar reglulega. Þægindahringurinn getur líka auðveldlega þrengst ef við könnum aldrei nýjar slóðir og festumst í því sem okkur þykir bara vera öruggast og þægilegast.
Næst var farið út í skiptingu eftir félagslegu samþykki og menningu í hópum. Leiðtogar, bæði jákvæðir og neikvæðir, eru þeir sem stýra menningu í hverjum hópi og menningin stýrir svo hegðun einstaklinga innan hópsins. Þau sem eru leiðtogar í bekknum hafa mikla ábyrgð í skólanum og lífinu yfir höfuð. Þau eiga auðvelt með að smita jákvæðri menningu á aðra í kringum sig og neikvæðni getur líka smitast skelfilega hratt.
Þá var fjallað um hvað einkennir manneskju sem við lítum upp til eða hefur áhrif á okkur. Í yfir 90% tilvika felast þessi einkenni í viðhorfi einstaklingsins. Við getum ákveðið að hafa gaman, vera jákvæð, hjálpsöm, traust og uppbyggileg og nýtt það í að hafa jákvæð áhrif á þá sem eru í kringum okkur. Allt sem við gerum, segjum og skrifum getur haft áhrif – ekki bara á aðra heldur einnig á okkur sjálf fram í tímann. Hvort sem það er þegar við sækjum um vinnuna sem okkur langar í eða annað.
Að lokum var farið yfir alls konar samskipti – sögð, ósögð, raddbeitingu og líkamstjáningu – allt getur þetta haft mikil áhrif og orðin sem við notum eru sterk en hvernig við beitum líkamanum og röddinni hefur oft mun meira að segja.
Bogi sendi fallega kveðju í kjölfarið: “Það var yndislegt að fá að koma í heimsókn til ykkar á föstudaginn, svona heimsóknir geta svo sannarlega lyft upp degi manns og það að fá innlit í skólann ykkar og bekkina gerði það svo sannarlega.”. Við segjum TAKK SÖMULEIÐIS!
Foreldrafélagið FOMEL veitti styrk fyrir heimsókninni frá Kvan. Bestu þakkir til þeirra.
Freyja, jafnréttisfulltrúi og gæðastjóri