Dagana 12. til 14. mars voru afar óhefðbundnir skóladagar hjá nemendum í Menntaskólanum að Laugarvatni enda var Dagamunur, Dollinn og árshátíð haldin þá dagana. En á Dagamun falla allir hefðbundnir tímar niður frá miðvikudegi til föstudags og taka þá við fjölbreytt námskeið og verklegir tímar. Þetta árið líkt og fyrr var um margt að velja, en til dæmis mætti nefna blöðrudýragerð, klifur og paddleboard úti á Laugarvatni. Einnig var opið hús þann 12. mars og gátu þá krakkar sem eru að útskrifast í vor úr 10. bekk komið með foreldrum og kynnt sér skólann. Á miðvikudeginum kom Sigga Dögg kynfræðingur og hélt ansi fróðlegan og skemmtilegan fyrirlestur fyrir nemendur og fengu svo nemendur tækifæri til þess að spyrja hana nafnlausra spurninga tengdar kynfræðslu. Föstudaginn 14. mars var svo haldið upp á Dollann sem er stórskemmtileg þrautakeppni, en þar er öllum nemendum skólans skipt í lið og fá öll liðin nöfn sem tengjast þema. Þetta árið var þemað teiknimyndir og var keppnin spennandi en það var Toy Story sem hlaut flest stigin og voru því sigurvegarar Dollans 2025. Eftir Dollan var gamanið sko ekki búið því  um kvöldið var haldin árshátíð menntaskólans. Þema árshátíðarinnar í ár var Casino og mættu nemendur og starfsfólk skólans í sínu fínasta pússi. Boðið var upp á ljúffenga þriggja rétta máltíð og Þrándur Ingvarsson nýútskrifaður stúdent úr ML veislustýrði árshátíðinni og náði svo sannarlega að skemmta og halda uppi stemningu meðal nemenda og starfsfólks. Að kvöldverði loknum var komið að ballinu og var það hljómsveitin Koppafeiti ásamt Kolfinnu Sjöfn sem spiluðu skemmtileg lög og dönsuðu allir af mikilli gleði.

Elena R. Marquez Gunnlaugsdóttir, ritnefndarformaður nemendafélagsins Mímis