Í síðustu viku fengu þýskunemar góða heimsókn. Á ferðinni voru Þjóðverjar sem stunda félags- og skólaliðanám í Berlín. Þetta var þeirra fyrsta heimsókn í skóla á tveggja vikna dvöl þeirra á landinu. Það má með sanni segja að við getum verið stolt af nemendum skólans sem gerðu sér lítið fyrir og spurðu þau alls kyns spurninga á þýsku. Við komumst að því að þau vilja helst sjá norðurljós og skoða náttúruna. Eins fengum við góðar upplýsingar um hvað við eigum að borða og gera í Berlín þegar við förum þangað með Berlínaráfanganum í vor. Gestirnir voru með spurningakeppni um Berlín og endað var á bingói, þar sem tölurnar voru auðvitað lesnar upp á þýsku. Eftir hádegismat var Áslaug þýskukennari og áfangastjóri með kynningu á skólanum.
Margrét Elín Ólafsdóttir þýskukennari



