Mánudaginn 14. október lögðu þrettán nemendur Berlínaráfanga af stað í langþráða ferð. Berlín er borg sem kemur ávallt á óvart og býr yfir miklum fjölbreytileika. Söfn og minnisvarðar eru á hverju götuhorni sem minna á sögu borgarinnar. Hér ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Þess vegna var hver dagur nýttur til fulls í heimsóknir, fræðslu og skemmtun.
Berlín tók vel á móti okkur með þægilegum hita og sínum sjarma. Við komum okkur fyrir á gistiheimili við Rosenthaler Platz og héldum síðan áleiðis að sjónvarpsturninum, hæstu byggingu borgarinnar, sem er staðsettur á Alexanderplatz og vinsæll áfangastaður til að virða fyrir sér borgina og kennileiti hennar í 203 m hæð. Eftir það gengum við að dómkirkjunni og götunni Unten der Linden, þar sem eru margar fallegar byggingar og fjörugt mannlíf. Við héldum þó ekki lengi út þennan dag eftir lítinn sem engan nætursvefn og því var farið snemma í háttinn og safnað kröftum fyrir næstu daga.
Þriðjudagurinn hófst með heimsókn í Fritz-Karsen skólann. Frank Folger, sem hefur heimsótt ML með þýska nemendur, fylgdi okkur á fund skólastjórans Roberts Giese sem sagði frá skólanum og skólakerfinu. Áhugavert var að heyra hvernig fjölbreytileiki og jafnræði tungumála er í hávegum hafður. Næst lá leið okkar í enskutíma þar sem nemendur unnu verkefni með jafnöldrum sínum. Í lokin sögðu nemendur stuttlega frá lífinu í ML. Skólastjórinn fór síðan með okkur um byggingar skólans sem gaman var að sjá.
Næst var haldið af stað að ánni Spree þar sem við fórum í afslappandi bátsferð og nutum útsýnisins og sólarinnar áður en við fórum á safn um dimman kafla í sögu borgarinnar. DDR-safnið er einstakt og óvenjulegt safn sem sýnir hversdagslíf á dögum Berlínarmúrsins og austur-þýsku leynilögreglunnar. Nemendur gátu gengið um vistarverur fólks, ritað á ritvél, lesið blöð frá þessum tíma og „keyrt“ Trabant. Um kvöldmatarleytið var okkur boðið í grillpartý með nemendum á vegum Franks. Boðið var upp á ekta þýskan grillmat og farið í leiki.
Á miðvikudegi fengum við leiðsögn frá Berlínum (www.berlinur.de). Árný Fjóla fræddi okkur um sögu borgarinnar og stjórnarhætti hennar í ferð sem kallast Brot af því besta. Gengið var frá aðalbrautarstöðinni, að kanslarahöllinni, Brandenburgarhliðinu og upp í glerkúpul þinghússins. Þaðan var gengið að minnisvarðanum um helförina og neðanjarðarbyrgi Hitlers. Ferðin endaði á Potzdamer Platz þar sem standa háhýsi í dag sem minna á New York. Við fórum næst að frægustu landamærastöðinni, Checkpoint Charlie, áður en nemendur fengu lausan tauminn og nýttu sér frítímann í verslunarleiðangur.
Byrjað var síðasta daginn í Berlín á heimsókn í Martin-Buber framhaldsskólann sem kom fyrir í kennslubók fyrri áfanga. Það kom okkur á óvart að enginn vissi af umfjöllun um skólann í þýskubók. Nemendur tóku á móti okkur á skólalóð og skiptu hópnum. Nemendur dreifðust á kennslustundir og fengu innsýn í kennsluhætti sem voru mjög misjafnir. Eitthvað hefur misfarist hjá einhverjum kennurum að nemendur væru byrjendur í þýsku svo mörg þeirra upplifðu sig sem nýja nemendur í nýju landi. En það er líka upplifun út af fyrir sig.
Næst á dagskrá var Múrtúr með Berlínum. Við vorum ansi sein vegna komu Joe Biden til Berlínar þennan dag sem hafði áhrif á samgöngur. Kennara var létt að hitta ætti Íslending en ekki stundvísan Þjóðverja! Hinrik Þór beið þolinmóður í múrgarðinum (Mauerpark). Hann fór með okkur um svæði sem var áður á mörkum Austur- og Vestur-Berlínar. Hinrik sagði frá sögu múrsins á eftirminnilegan hátt og stóðum við agndofa yfir lýsingunum. Mátti enn sjá hluta af Berlínarmúrnum sem og varðturn. Við kvöddum Hinrik eftir um 2 tíma fræðslu og héldum af stað á Alexanderplatz. Þó var dagskránni ekki alveg lokið og tókum við strætó í vesturhluta Berlínar og virtum fyrir okkur helstu kennileitum þar, má nefna Bellevue höllina, Sigursúluna og Minningarkirkju Vilhjálms keisara, kirkja sem fór mjög illa í seinni heimsstyrjöld og stendur hluti hennar enn uppi sem minnisvarði. Ferðalag okkar varð mun lengra en til stóð þar sem strætó gekk ekki lengur en til kl. 21. Vorum við því strandaglópar á stoppistöð. Við gengum af stað og sáum lögreglumenn á hverju horni. Nemendur spurðu þá hvað gengi á og fengu þau svör að von væri á Joe Biden á hverri stundu. Það var því mikil upplifun fyrir nemendur að sjá allan þann fjölda af lögreglubílum, -hjólum og -þyrlum sem fylgdu þessum háttsetta manni. Sáttir nemendur lögðust mun seinna á koddann en áætlað var og þurftu að vera snöggir að pakka, því þetta var síðasti dagurinn okkar.
Á föstudegi héldu þreyttir en ánægðir nemendur og kennari af stað heim til Íslands. Nemendur voru svo sannarlega sínum skóla til sóma, voru áhugasöm og jákvæð. Ferðin veitti nemendum nýja sýn á Berlín og tungumálið. Nemendur æfðu sig í þýsku og styrktu þar með kunnáttu sína sem við fáum að sjá í myndbandsverkefni við lok Berlínaráfanga
Kærar þakkir til nemenda fyrir frábæra ferð!
Kveðja,
Margrét Elín Ólafsdóttir, þýskukennari.
Myndir úr ferðinni má sjá hér. Sjón er sögu ríkari!