Þann 19. september síðastliðinn fóru nemendur í útivist, framhaldsáfanga í gönguferð með allt á bakinu. Það er að mörgu að huga fyrir svona ferðir, það þarf að finna til fatnað til að geta verið viðbúinn öllum mögulegum veðrum, svefnpoka og einangrunardýnu til að líða þokkalega þegar von getur verið á næturfrosti, tjald, matur o.fl.
Hópurinn var mjög heppinn með veður enda sól og blíða og gott hitastig fyrir göngu, ekki of hlýtt og ekki of kalt. Gengið var frá skólanum í gegnum þorpið, tjaldsvæðið og gamla hjólhýsasvæðið, í gegnum sumarhúsabyggð í Giljareitum og áfram upp veg í Stekkárreitum. Þegar veginum sleppti vorum við komin í nokkurskonar óbyggðir, þvílíkur lúxus að geta gengið frá skólanum komist í ósnortna náttúru. Eftir að hafa gengið í nokkurn tíma og sogað inn fegurð haustlitanna komum við að Skillandsá en þar var fyrirhugað að tjalda við litla hlaðna rétt. Tjöldum var hent upp og svo safnaðist hópurinn saman í litlum hellisskúta þar sem allir fengu sér að borða, kveiktu varðeld og svo var sungið og hlegið. Þegar nemendur og raddbönd þurftu á hvíld að halda var skriðið inn í tjöld þar sem flestir náðu að hvílast þokkalega þrátt fyrir kulda næturinnar.
Eftir nóttina áttu nemendur mis auðvelt með að skríða úr svefnpokanum því morgunkuldinn sótti að. Það hafðist þó hjá öllum að lokum og eftir að hafa pakkað niður í bakpoka og hent í sig smá næringu var haldið af stað niður að Ketilvöllum.
Allt í allt frábær ferð og nemendur stóðu sig með stakri prýði.
Smári Stefánsson útivistarkennari