Vortónleikar kórs Menntaskólans að Laugarvatni voru haldnir í Skálholtskirkju á sólríkum og björtum miðvikudegi þann 24. apríl. Boðið var upp á tvenna tónleika sem heppnuðust einstaklega vel. Kórmeðlimir lífguðu ekki einungis upp á kirkjuna með sínum bjarta og fallega söng, litríkur fatnaður þeirra var einnig áberandi. Hefð er fyrir frjálsari klæðaburði á vortónleikum kórsins.

Sungin voru fjölbreytt lög af stakri prýði. Hátíðleg lög á borð við Ég er kominn heim, Smávinir fagrir og Til fánans. Síðasta lag fyrir hlé var Lofsöngur, sjálfur þjóðsöngur Íslands sem má með sanni segja að snerti við fólki. Skemmtilegur gjörningur kom fyrir í flutningi á Krummavísum og Frozen. Poppaðri lög eins og California dreaming, Let me live, Fallegur dagur og Brúðkaupsvísur voru einnig á dagskrá. Hljóðfæraleik í lögum sáu nemendur um ásamt Eyrúnu kórstjóra. Arnbjörg Ýr Sigurðardóttir annaðist trommuslátt, Magnús Arngrímur Sigurðsson spilaði á píanó, Hjördís Katla Jónasdóttir á Saxófón, Gunnar Tómasson á gítar og bassann plokkuðu Axel Ýmir Grönli og Máni Arnórsson.

Vortónleikar marka þáttaskil í sögu kórsins þar sem þetta telst sem lokaverkefni hans og á ári hverju kveður 3. bekkur hann og heldur á vit nýrra ævintýra. Í lok seinni tónleika mátti því sjá þónokkur tárvot augu.

Ávallt er valin kórstjórn í byrjun skólaárs og er starf hennar öflugt. Eitt af fjölmörgum störfum stjórnar er að sjá um miðasölu og auglýsingar á tónleika. Í stjórn sátu Hekla Dís Sigurðardóttir formaður, Emilía Sara Kristjánsdóttir gjaldkeri, Kolfinna Sjöfn Ómarsdóttir ritari, meðstjórnendurnir Sjöfn Lovísa Bahner Jónsdóttir og Þórey Kristín Rúnarsdóttir. 

Mikilvægt er að nefna alla þá vinnu og metnað sem Eyrún Jónasdóttir kórstjóri leggur á sig sem hún á svo sannarlega mikið hrós fyrir skilið. Þetta er krefjandi starf með stærsta menntaskólakór landsins! Það mætti segja að hún byrji á hverju ári með nýjan kór. Einn þriðji hluti reyndra meðlima fer og um sami hluti af byrjendum kemur inn í staðinn. Öll sem koma í ML fá tækifæri til þess að starfa með kórnum. Sumir eru jafnvel að stíga sín allra fyrstu skref í kórsöng.

Pálmi Hilmarsson húsbóndi ásamt húsfreyjunni Erlu Þorsteinsdóttur standa þétt við bakið á öllu sem kemur að kórnum og styðja verkefnastjóra. Pálmi keyrir rútuna og tekur upp tónleikana. Því vil ég einnig benda á að hann er duglegur að setja inn myndbönd af tónleikum á Facebook-síðuna sína.

Fyrir hönd kórsins þakka ég veittan stuðning og fyrir komuna á tónleika þetta skólaárið.

Hér eru myndir frá tónleikunum.

Sjáumst vonandi á næsta ári!

Kær sumarkveðja,

Margrét Elín Ólafsdóttir verkefnastjóri kórsins.