Mánudaginn 28. mars fóru yfir 50 nemendur í rútuferð til Reykjavíkur. Ferðin tengdist lífsleikniáfanga sem snýst um náms- og starfsval eftir stúdentspróf og stjórnmálafræði.   

Nemendur á Náttúruvísindabraut byrjuðu á heimsókn í stoðtækjafyrirtækið Össur. Þar fengu þeir  frábærar móttökur og leiðsögn um fyrirtækið. Nemendur voru mjög áhugasamir og spurðu ótal spurninga sem starfsfólk Össurar svaraði greiðlega. 

Nemendur á félags- og hugvísindabraut héldu áfram niður í bæ og byrjuðu á að heimsækja Alþingi. Farið var í skoðunarferð um húsið, sagt frá sögu þess og störfum þingsins. Guðrún Hafsteinsdóttir, 1. þingmaður Suðurkjördæmis hitti hópinn, deildi sinni reynslu og svaraði spurningum.   

Hóparnir sameinuðust svo í miðbænum og snæddu hádegisverð á Hard Rock Café. 

Næst lá leiðin í Háskólann í Reykjavík.  Rektor HR, Ragnhildur Helgadóttir ávarpaði hópinn og bauð hann velkominn. Eftir kynningu á sal gengu nemendur um háskólabygginguna og heimsóttu ólíkar deildir skólans, m.a.  íþrótta- , tölvunarfræði-, iðn- og tæknifræðideild og hittu þar fyrir bæði kennara og nemendur.  

Þá var komið að Háskóla Íslands og þar fékk hópurinn góða kynningu á viðamiklu námi skólans.  Nemendur skoðuð sig um háskólasvæðinu, litu við á Háskólatorgi og fengu sér hressingu í Hámu. Á meðan nemendur Félagsvísindabrautar heilsuðu upp á forseta Íslands kíktu nemendur Náttúruvísindabrautar yfir í Veröld, hús Vigdísar.  

Eftir háskólakynningar þá skiptist hópurinn aftur. Nemendur á náttúruvísindabraut heimsóttu Íslenska Erfðagreiningu og hittu þar tvo vísindamenn, þær Ástrósu Th. Skúladóttur og Þjóðbjörgu Eiríksdóttur. Gaman að segja frá því að Þjóðbjörg útskrifaðist einmitt frá ML fyrir nokkrum árum.  Þær sögðu nemendum frá merkilegri rannsókn sem Þjóðbjörg tók þátt í og þróaði, ásamt fleiri vísindamönnum ÍE, líkan sem spáir fyrir um lífslíkur.  

Heimsókn á Bessastaði var hápunktur ferðarinn hjá stjórnmálafræðinemum. Boðið var upp á kaffi og pönnsur og þau áttu líflegt og fróðlegt spjall við Guðna Th. Jóhannesson.   

Úr umsögnum nemenda um ferðina:   

Eitt er að sitja í tíma að læra en að fara að skoða vekur áhuga. Ég var líka mjög ánægð með það að við förum í HR og HÍ það var gaman.  

Mér fannst ferðin virkilega skemmtileg og alltaf gaman að brjóta aðeins upp hefðbundinn skóladag.  

Maður lærði rosalega mikið um þetta og á skemmtilegan hátt, gaman að vera með vinum í rútu og rosalega fróðlegt og þægilegt að fara á háskólakynningar.  

Þetta var geggjuð ferð. Væri ótrúlega gaman að fara í svona ferð aftur og hver veit, kannski hitta Katrínu Jakobsdóttur næst?  

Það var fróðlegt og skemmtilegt í HR og HÍ. Ótrúleg upplifun að fara á Bessastaði.  

Mér finnst þessi ferð ómissandi. Ég var mjög ánægð.   

Ég var mjög ánægður með skipulagið og vona að  við förum í fleiri svipaðar ferðir.  

Eina sem ég get sagt er að mér fannst þessi ferð geggjuð.  

Freyja og Gríma