Nemendur í 2. bekk fóru á Njáluslóðir á dögunum. Áð var á helstu sögustöðum og brugðið á leik í kyrri haustblíðu. Við Gunnarsstein við Rangá varð reyndar umtalsvert mannfall! Þar léku nemendur á alls oddi í víkingabúningum, sveifluðu sverðum og skjöldum og túlkuðu bardagann þar sem Gunnar og bræður hans börðust þrír við 30 óvini, drápu nokkra og ráku restina á brott.  Eftir lætin við Rangá var komið við á Sögusetrinu á Hvolsvelli. Þar var borðað og m.a. keppt í axarkasti áður en keyrt var inn í Fljótshlíð að Hlíðarenda og niður í Landeyjar að Bergþórshvoli. Krakkarnir voru glaðir og reifir í ferðinni, veltu sér í brekkum, klöppuðu hundum, klifruðu upp á hóla og steina og spáðu og spekúleruðu í hinu og þessu sem varðaði söguna. Pálmi keyrði rútuna og renndi í hlað með allan hópinn í tæka tíð fyrir síðdegiskaffið í Menntaskólanum. 

​Elín Una Jónsdóttir, íslenskukennari