2.F og 2.N eyddu mánudeginum 27. febrúar í sameiginlegri Reykjavíkurferð stjórnmálafræði og lífsleikni. Ferðin flokkast undir samstarfs- og samskiptaverkefni í ML, sem miða að því að efla tengsl við atvinnulífið og önnur skólastig. Á heildina litið voru nemendur afar ánægð með ferðina, eins og þessi ummæli sýna:
Þetta er góð breyting og maður man meira að mínu mati eitthvað þegar það er sagt fyrir utan skólastofu og gert það að einhverri skemmtilegri upplifun.
Mér finnst mikilvægt að hafa svona uppbrot frá hefðbundnu námi. Ferðin var mjög fróðleg og skemmtileg, og fór ég sátt heim.
Ég held að svona ferð sé nauðsynleg til að sjá betur um hvað við erum að læra og mikilvægt að fá að spjalla við fólk sem vinnur við svona.
Það er gott að fara út og læra um hvernig það er ekki í gegnum kennslustofu heldur fólki með reynslu í vinnunni.
Nemendur á Félags- og hugvísindabraut fengu skoðunarferð um Alþingishúsið, auk fræðslu um sögu og störf þingsins. „Það var tekið svakalega vel á móti okkur og fólkið þarna var mjög skemmtilegt. Það var líka svo fallegt þarna.” sagði einn nemandi. Hafdís Huld Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknarfólksins hitti hópinn í lokin: “Mér fannst svo gaman að fá að sjá þetta allt og fá að heyra reynslu Hafdísar. Mér fannst merkilegt að sjá myndir af fyrrum þingmönnum og að sjá aðal alþingissalinn í persónu.”
Nemendur á Náttúruvísindabraut byrjuðu á heimsókn í stoðtækjafyrirtækið Össur. Þar fengu þeir frábærar móttökur og leiðsögn um fyrirtækið. Nemendur voru mjög áhugasamir og spurðu ótal spurninga sem starfsfólk Össurar svaraði greiðlega.
Hóparnir sameinuðust og snæddu hádegisverð í Stúdentakjallaranum og fengu svo kynningu á viðamiklu námi Háskóla Íslands. Næst lá leiðin í Háskólann í Reykjavík. Eftir kynningu á sal gengu nemendur um háskólabygginguna og heimsóttu ólíkar deildir skólans, m.a. íþrótta- , tölvunarfræði-, iðn- og tæknifræðideild og hittu þar fyrir bæði kennara og nemendur.
Gaman var að heyra hversu kynningarfulltrúar bæði hjá háskólunum og Össuri voru ánægðir með hvað nemendahópurinn frá ML var áhugasamur og spurði mikils.
2N endaði á að heimsækja Perluna og skoða sýningu um magnaða náttúru Íslands. Þau nutu þessa að halla sér aftur og horfa á norðurljósasýninguna. Íshellirinn var spennandi, fuglabjörgin og margt fleira. Rúsínan í pylsuendanum var ísgerðin á 4. hæð þar nemendur gæddu sér á ljúffengum ís í einstöku umhverfi.
Hápunkturinn fyrir 2F var án efa síðdegiskaffi með forsetanum á Bessastöðum:
Guðni var svo skemmtilegur og tók svo vel á móti okkur, hann tók engu nærri sér og var til í að svara spurningunum okkar (jafnvel þeim heimskulegu). Mér fannst sagan um drauginn á Bessastöðum svo skemmtileg og listaverkin í húsinu voru svo falleg! Þetta var svo skemmtileg reynsla og svo fróðlegt líka að tala við hann um hvernig hann hefur upplifað hans reynslu sem forseti (líka gaman að heyra söguna um ananasinn og sokkana haha). Húsið var líka bara svo fallegt, ég myndi elska að fara þarna aftur bara til að skoða betur húsið og listaverkin (og líka fá fleiri pönnsur).
Freyja stjórnmálafræðikennari og Gríma lífsleiknikennari
Hérna eru myndir úr ferðinni.