Hér forðum daga var skipaður ármaður á hverri vist Menntaskólans að Laugarvatni og viðkomandi gekk um ganga á morgnana og sá til þess að allir vistarbúar risu tímanlega úr rekkju og héldu til morgunverðar og kennslustunda. Í hugleiðingum nemenda síðastliðið vor við skólameistara örlaði á ótta um að í ljósi Covid-19 myndu hefði leggjast af og því mikilvægt að hlúa að þeim sérstaklega. Í þessum anda var brugðið á það ráð endurvekja með nýjum brag þessa gömlu hefð og Ármannsvika var skipulögð.
Kl. 7:20 vikuna 26. – 30. september gengu stjórnarmeðlimir nemendafélagsins Mímis um vistar og vöktu alla nemendur skólans. Eitthvað voru nemendur misjafnlega morgunglaðir en heilt á litið tókst vikan vel. Skólinn vildi með þessu fyrst og fremst vekja athygli nemenda sinna á mikilvægi svefns og góðri næringu þeirra sem sinna krefjandi námi.
Hluti af Ármannsvikunni var svo evrópsk hreyfivika á vegum ÍSÍ sem kynnt hefur verið undir myllumerkinu #BeActive en Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hefur hlotið styrk frá Evrópusambandinu í gegnum Erasmus+ styrkjakerfið til verkefna sem munu tengjast vikunni. Markmiðið með íþróttaviku þessari er að kynna íþróttir og almenna hreyfingu og sporna við auknu hreyfingarleysi meðal almennings og átti þetta vel við inn í þá heilsuvakningu sem Ármannsvikunni er ætlað að vera. Ýmsir viðburðir voru í boði þessa vikuna í tengslum við þessa hreyfivakningu og sem dæmi má nefna gjaldfrjáls heimsókn í Fontana fyrir nemendur og starfsfólk ML, golfæfing í boði Dalbúa, strútsfótbolti, jóga, hugleiðsla, feluleikur og margt fleira.
Menntaskólinn færir öllum þeim sem lögðu hönd á plóg í Ármannsviku kærlega fyrir hjálpina og hvetur alla til að skoða myndir af viðburðum vikunnar.
Jóna Katrín